Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Viðbrögð við umræðum um Breiðavíkurheimilið

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að bregðast við upplýsingum um brot gegn börnum sem vistuð voru á vegum hins opinbera á Breiðavíkurheimilinu.

Þolendum, foreldrum þolenda og fyrrverandi starfsfólki í Breiðavík verður þegar boðin ráðgjöf og þjónusta þverfaglegs sérfræðingateymis á vegum Landspítala – háskólasjúkrahúss undir forystu Jóns Friðriks Sigurðssonar sálfræðings. Þeim sem á þurfa að halda er bent á að gefa sig fram við Landspítala –háskólasjúkrahúss í síma 543 1000.

Ríkisstjórnin hefur enn fremur ákveðið að leggja fram frumvarp til laga á Alþingi um að fram fari heildstæð og almenn athugun á því hvernig rekstri Breiðavíkurheimilisins var háttað á árabilinu 1950 til 1980 og eftir atvikum hliðstæðra stofnana og sérskóla þar sem börn dvöldu. Gefi upplýsingar og gögn tilefni til þess að rannsóknin taki til rekstrar nær í tíma skulu tímatakmörk rannsóknarinnar útvíkkuð samkvæmt því. Rannsókninni stýrir Róbert Spanó, prófessor í lögfræði.

Með rannsókninni er ætlunin að fara yfir greinargerðir og rannsóknir sem liggja fyrir um þá starfsemi sem athugunin tekur til en jafnframt að afla nýrra gagna frá viðkomandi stofnunum og einstaklingum sem dvöldu eða störfuðu á heimilunum. Einnig verður kannað hvernig eftirliti var háttað með heimilunum á því tímabili sem athugunin beinist að.

Skilað verður ítarlegri greinargerð á grundvelli rannsóknarinnar fyrir 1. janúar 2008 og gerðar tillögur um frekari viðbrögð stjórnvalda. Þá skal fjallað um hvaða lærdóm megi draga af niðurstöðum rannsóknarinnar og gera tillögur sem ætlað er að koma í veg fyrir að brotinn verði réttur á börnum í opinberri forsjá.

Í störfum þessum skal litið til hliðstæðra athugana sem unnar hafa verið erlendis, meðal annars í Noregi og Svíþjóð, og reynslu af úrlausnum á grundvelli þeirra.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta