Ný stefnumörkun í loftslagsmálum
Ríkisstjórnin hefur samþykkt nýja stefnumörkun í loftslagsmálum. Stefnumörkunin er hugsuð sem rammi utan um aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum, sem verður í reglulegri endurskoðun í ljósi nýrrar vísindalegrar þekkingar, þróun alþjóðlegrar samvinnu gegn loftslagsbreytingum og áherslu stjórnvalda hverju sinni. Hún er víðtækari en fyrri stefnumörkun frá 2002, sem miðaði einkum að því tryggja að Ísland myndi standa við skuldbindingar sínar gagnvart Kýótó-bókuninni.
Í stefnumörkuninni er sett langtímasýn um að minnka nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 50-75% fram til 2050, miðað við árið 1990. Með nettólosun er átt við losun að frádreginni bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu.
Sett eru fram fimm meginmarkmið íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum, sem miða að því að gera langtímasýnina að veruleika:
- Íslensk stjórnvöld munu standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar innan ramma Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og Kýótó-bókunarinnar.
- Leitað verður allra hagkvæmra leiða til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Markvisst verður stuðlað að samdrætti í notkun jarðefnaeldsneytis, en þess í stað nýtt endurnýjanleg orka og loftslagsvænt eldsneyti.
- Stuðlað verður að aukinni bindingu kolefnis úr andrúmslofti með skógrækt og landgræðslu, endurheimt votlendis og breyttri landnotkun.
- Rannsóknir og nýsköpun á sviði loftslagsmála verður efld og stutt við útflutning á íslensku hugviti á sviði endurnýjanlegrar orku og loftslagsvænnar tækni.
- Undirbúin verður aðlögun að loftslagsbreytingum jafnhliða því sem leitað verður leiða til að draga úr hraða þeirra og styrkleika.
Lagðar eru til fjölmargar aðgerðir í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá sex uppsprettum: Orkuframleiðslu, samgöngum og eldsneyti, iðnaðarferlum, sjávarútvegi, landbúnaði og úrgangi. Einnig eru lagðar til aðgerðir til þess að auka bindingu kolefnis. Tölulegir vísar eru í skýrslunni um losun frá Íslandi og einstaka uppsprettum, sem verða uppfærðir reglulega svo unnt sé að fylgjast með framgangi loftslagsstefnunnar og árangri.
Áhersla er lögð á að draga úr nettólosun á sem hagkvæmastan hátt, m.a. með innleiðingu nýrrar tækni, hagrænum aðgerðum, bindingu kolefnis og fjármögnun á framkvæmdum erlendis á sviði endurnýjanlegrar orku. Margar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum hafa annan samfélagslegan ávinning í för með sér og verður áhersla lögð á slíkar aðgerðir. Bent er á sérstöðu Íslands í loftslagsmálum, sem m.a. felst í mikilli notkun endurnýjanlegra orkulinda, möguleika á bindingu kolefnis með skógrækt og landgræðslu og útflutningi á loftslagsvænni tækni og þekkingu, m.a. á sviði jarðhita, sem kann að vera öflugasta framlag Íslands til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.
Tvær sérfræðinganefndir
Framkvæmd loftslagsstefnunnar verður styrkt, m.a. með því að setja tvær sérfræðinganefndir á fót, sem verða samráðsnefnd ráðuneyta um loftslagsmál til aðstoðar. Annars vegar mun umhverfisráðherra skipa vísindanefnd, sem verður falið að skila skýrslu um líkleg áhrif loftslagsbreytinga á Ísland á komandi áratugum og aðlögun að þeim. Hins vegar verður skipuð sérfræðinganefnd um minnkun nettólosunar gróðurhúsalofttegunda, sem verður falið að gera faglegt mat á möguleikum Íslands til að draga úr nettólosun og hagkvæmni einstakra aðgerða.
Fjallað er um rannsóknir og nýsköpun á sviði loftslagsbreytinga og bent á að Ísland er að mörgu leyti áhugavert hvað slíkt varðar, m.a. vegna legu landsins við mörk Norðurheimskautssvæðisins og við Golfstrauminn, möguleika til bindingar kolefnis úr andrúmslofti og gnægð endurnýjanlegra orkulinda og framsækinni tækni til að nýta þær og almennt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Rannsóknir tengdar loftslagsbreytingum feli í sér tækifæri til að efla íslenskt vísindasamfélag og taka virkan þátt í alþjóðlegu starfi til að vakta afleiðingar loftslagsbreytinga og þróa lausnir á vandanum.
Bent er á að stjórnvöld eigi erfitt með að ná viðunandi árangri nema með góðri samvinnu við atvinnulíf og félagasamtök og almenningur geti tekið þátt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, þótt losun einstaklinga sé með öðrum hætti en víðast erlendis og að mestu bundin við samgöngur.
Góður árangur af fyrri stefnumörkun
Drög að stefnumörkuninni voru unnin af samráðsnefnd átta ráðuneyta undir formennsku umhverfisráðuneytisins, sem voru síðan lögð fyrir ríkisstjórn til samþykkis. Núverandi stefnumörkun er frá árinu 2002, en í henni var gert ráð fyrir endurskoðun stefnunnar, sem nú liggur fyrir. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, iðnaðarráðuneytisins, landbúnaðarráðuneytisins, samgönguráðuneytisins, sjávarútvegsráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins, auk umhverfisráðuneytisins.
Með nýju stefnunni fylgir yfirlit yfir framkvæmd stefnumörkunarinnar frá 2002 og kemur þar fram að lykilákvæðum hennar hefur verið hrint í framkvæmd. Talið er að framkvæmd stefnumörkunarinnar hafi valdið því að losun frá Íslandi hafi verið um 300.000 tonnum af ígildum koldíoxíðs minni en ella árið 2005 og munar þar mest um aukna skógrækt og landgræðslu og mikla minnkun á losun flúorkolefna frá álframleiðslu.