Sérfræðingur á skrifstofu menntamála
Menntamálaráðuneyti auglýsir laust til umsóknar starf sérfræðings á skrifstofu menntamála. Um er að ræða fullt starf.
Leitað er að háskólamenntuðum einstaklingi með þekkingu og reynslu af starfi framhaldsskóla. Starfið er einkum fólgið í vinnu við námskrá og er æskilegt að umsækjandi hafi reynslu og þekkingu á sviði námskrárgerðar. Frumkvæði, sjálfstæð vinnubrögð, góð kunnátta í ensku og einu Norðurlandamáli og þekking á nýtingu upplýsingatækni er nauðsynleg ásamt ritfærni og hæfni í mannlegum samskiptum.
Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst. Laun greiðast samkvæmt launakerfi Félags háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins. Nánari upplýsingar veitir Kristín Jónsdóttir, skrifstofustjóri.
Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil sendist menntamálaráðuneyti, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík. Umsóknarfrestur er til 9. mars 2007.