Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Yfirlýsing um reglulega móttöku flóttamanna

Félagsmálaráðherra og utanríkisráðherra undirrita yfirlýsingu um móttöku flóttamanna
Félagsmálaráðherra og utanríkisráðherra undirrita yfirlýsingu um móttöku flóttamanna

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra og Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra undirrituðu í dag yfirlýsingu sem er ætlað að renna styrkum stoðum undir reglulega móttöku flóttamana hér á landi og samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR.

Nýtt fyrirkomulag á samstarfi utanríkis- og félagsmálaráðuneytisins á þessu sviði felur í sér að utanríkisráðuneytið kemur með beinum hætti að fjármögnun flóttamannaverkefna og ennfremur að félags- og utanríkismálaráðherra munu framvegis leggja fram sameiginlega tillögu til ríkisstjórnar um móttöku flóttamanna að höfðu samráði við flóttamannanefnd.

Málefni innflytjenda og þar með talið flóttamanna eru á verksviði félagsmálaráðuneytisins, en kostnaður við flóttamannaverkefni er á vettvangi OECD skilgreindur sem þróunaraðstoð.

Íslendingar hafa með reglubundnum hætti tekið á móti flóttamannahópum frá árinu 1996 og er fjöldi þeirra einstaklinga sem hingað hafa komið nú 247.

Vinnubrögð íslenskra stjórnvalda við móttöku flóttamanna hefur vakið athygli á vettvangi Flóttamannastofnunar SÞ sem hefur óskað eftir því að sú aðferðafræði sem unnið hefur verið eftir hér á landi verði nýtt sem fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir.

Við undirritunina óskuðu ráðherrar félags- og utanríkismála þeim góðs gengis sem annast framkvæmd verkefnisins. Árni Gunnarsson, formaður flóttamannanefndar, og Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, fögnuðu þessum áfanga.

„Við væntum þess að sameiginleg yfirlýsing utanríkisráðherra og félagsmálaráðherra um aukið samstarf á þessu sviði tryggi meiri samfellu en verið hefur,“ segir Kristján Sturluson. „Gæði flóttamannaverkefnisins og stöðugleiki aukast en það er mjög mikilvægt að geta horft til lengri tíma.“

„Hópar flóttamanna verða áfram valdir út frá mannúðarsjónarmiðum,“ segir Árni Gunnarsson. „Hafist verður handa við verkefnið strax og það er styrkur að því að utanríkisráðuneytið skuli ásamt félagsmálaráðuneytinu koma beint að því með þessum hætti.“

Skjal fyrir Acrobat ReaderYfirlýsingin um reglulega móttöku flóttamanna



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta