Endurskoðuð áætlun í jafnréttismálum
Ríkisstjórnin samþykkti í dag að leggja fram tillögu til þingsályktunar um endurskoðaða áætlun í jafnréttismálum sem unnin var í félagsmálaráðuneytinu ásamt skýrslu um stöðu og horfur í jafnréttismálum.
Endurskoðuð áætlun byggist á þeirri jafnréttisáætlun sem var lögð fram árið 2004 og gildir til loka maí árið 2008. Áherslurnar eru hinar sömu en fylgt er eftir og metin staða verkefna sem unnin hafa verið, nýjum verkefnum bætt inn þar sem við á og felld út verkefni sem lokið er. Einnig hefur tímaáætlunum einstakra verkefna verið breytt.
Áfram þykir nauðsynlegt að samþætta jafnréttis- og kynjasjónarmið daglegu starfi allra ráðuneyta. Samþætting er þó ekki markmið í sjálfu sér heldur jafnrétti kynjanna. Samþætting er aðferð sem tryggja á að jafnréttis- og kynjasjónarmið séu viðhöfð í allri opinberri stefnumótun, það er við undirbúning tillagna, ákvarðanatöku, framkvæmdir og mat. Þetta er mikilvægt til að þarfir beggja kynja séu sýnilegar á öllum stigum málsins.
Í síðustu áætlun var lögð áhersla á að jafna hlutföll kynjanna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneyta. Árið 2004 var hlutur kvenna 38 prósent en 37 prósent 2005. Félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið hafa náð því að auka hlut kvenna í 40 prósent eins og stefnt var að. Ríkisstjórnin þarf að huga betur að þessu á næstu árum og að því verður áfram unnið í þessari áætlun.
Kynbundinn launamunur er enn eitt af helstu áhersluatriðum framkvæmdaáætlunarinnar. Lengi vel minnkaði þessi munur en upplýsingar frá Hagstofu Íslands og könnunin „Launamyndun og kynbundinn launamunur“ sem Capacent Gallup vann fyrir félagsmálaráðuneytið árið 2006 benda til þess að stöðnun hafi ríkt undanfarin ár og því er talið mikilvægt að halda vinnunni áfram. Kynbundinn launamunur og verkefni tengd vinnumarkaði fá því talsvert rými í þessari framkvæmdaáætlun.
Skýrsla um stöðu og þróun í jafnréttismálum frá árinu 2004 er lögð fram samhliða endurskoðaðri jafnréttisáætlun. Markmið skýrslunnar er að fara yfir stöðu þeirra verkefna sem er að finna í áætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2004–2008 þegar gildistími hennar er hálfnaður. Sjónum er einkum beint að þætti hins opinbera þótt ljósi sé jafnframt varpað á stöðu mála í heild, meðal annars á vinnumarkaði. Skýrslunni er jafnframt ætlað að efla umræðu um jafnréttismál hér á landi.
Skýrsla félagsmálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála frá árinu 2004