Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2007 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra í vinnuheimsókn í Úganda

Utanríkisráðherra í Úganda
Utanríkisráðherra í Úganda

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 026

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, er þessa dagana í vinnuheimsókn í Úganda. Í dag heimsótti ráðherra Pader hérað í norðurhluta landsins. Heimsóknin var skipulögð af Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna í samvinnu við héraðsstjórnvöld. Fulltrúar Matvælaáætlunarinnar og ráðherra uppbyggingar fyrir norðurhéruðin, David Wakikona, fylgdu ráðherra.

Í Paderbæ var heimsótt heimili fyrir börn sem eru í aðlögun eftir að hafa verið rænt og haldið af Frelsisher Drottins árum saman. Heimilið er rekið af kristilegum samtökum. Að því loknu var haldið til Kalongo flóttamannabúðanna þar sem dvelja nokkur þúsund manns. Einnig rekur kaþólska kirkjan á Ítalíu þar skóla, sjúkrahús og þjálfar ljósmæður, auk þess að sinna ungum mæðrum með vannærð börn. Ráðherra færði stúlknaskóla Maríu guðsmóður landakort og ritföng, sem Kaupþing banki ánafnaði.

Ráðherra hitti einnig samtök kvenna sem hjálpa HIV smituðum og á fundi þeirra flutti einn skjólstæðinga samtakanna ljóð sem samið var í tilefni heimsóknarinnar.

Eins og kunnug er kosta íslensk stjórnvöld skólamáltíðir í Úganda og Malaví í samvinnu við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna. Ætlunin var að kosta daglega jafnmargar máltíðir og nemur fjölda íslenskra skólabarna, eða um 45 þúsund. Í ferðinni upplýstu fulltrúar Matvælaáætlunarinnar ráðherra um það að þar sem keypt var innlent hráefni í máltíðirnar tókst að fjölga þeim í 63 þúsund á dag í Úganda. Í Kalongo átti ráðherra fundi með formanni héraðsstjórnar og sveitarstjórnarfulltrúum sem útlistuðu þau vandamál sem héraðið á við að stríða, en þar hafa vopnuð átök og erjur lengi staðið í vegi fyrir framþróun. Frelsisher drottins hefur undanfarin 20 ár ógnað lífi og limum héraðsbúa og neytt yfir 90 af hundraði þeirra til þess að flýja heimili sín í verndaðar búðir, þar sem menn treysta nær alfarið á matargjafir. Ráðherra var viðstödd mánaðarlega matarúthlutun fyrir íbúa svæðisins. Slíkar úthlutunarstöðvar eru alls 150 í norðurhluta Úganda.

Á morgun hittir ráðherra forseta landsins, starfandi utanríkisráðherra og ráðherra jafnréttis og félagsmála.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta