Aukin velta á gjaldeyrismarkaði
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 22. febrúar 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Á undanförnum árum hefur velta á gjaldeyrismarkaði á Íslandi aukist til muna.
Árið 2004 var veltan tæpir 950 milljarðar króna en árið 2006 hafði veltan ríflega fjórfaldast og var 4.400 milljarðar króna. Þessi þróun endurspeglar aukin tengsl íslensks fjármálamarkaðar við alþjóðlega markaði.
Þáttaskil urðu á haustmánuðum 2005 þegar gefin voru út fyrstu jöklabréfin hér á landi en það eru bréf gefin út í krónum af erlendum aðilum. Útgáfan er liður í svokölluðum vaxtamunarviðskiptum (e. carry trade) sem byggjast á því að taka lán þar sem vextir eru lágir og fjárfesta í ríkjum sem búa við háa vexti.
Eins og sakir standa er Ísland kjörið fyrir vaxtamunarviðskipti þar sem landið er með traustar efnahagsstoðir og gott lánstraust en býr við hátt vaxtastig og mikla eftirspurn eftir lánsfé.
Frá haustmánuðum 2005 hafa verið gefin út jöklabréf fyrir um 383 milljarða króna. Útgáfan fór hressilega af stað en féll niður í kjölfar óróa á fjármálamörkuðum í febrúar og mars 2006. Á þeim tíma jókst velta á gjaldeyrismarkaði afar mikið þar sem fjárfestar losuðu sig úr krónustöðum. Þegar öldur lægði glæddist útgáfa jöklabréfa á ný og náði nýjum hæðum í janúar síðastliðnum þegar útgáfan nam 68,5 milljörðum króna.
Jöklabréfaútgáfa er ekki eini vitnisburðurinn um aukinn áhuga erlendra aðila á íslenskum fjármálamarkaði því háir vextir á íslenskum verðbréfum hafa laðað að sér erlent fjármagn í auknum mæli. Þetta hefur komið fram í viðskiptum með ríkis- og húsbréf en einnig hlutabréf eftir góð uppgjör fyrirtækja hér á landi síðustu misseri. Fyrir vikið virðist vera nokkuð stöðug aukning í veltu á gjaldeyrismarkaði og það sem af er ári hefur gengi krónu styrkst talsvert eða um 8%.
Aukin samþætting íslensks fjármálamarkaðar við hinn alþjóðlega hefur valdið því að atburðir sem tengjast Íslandi ekki beint geta haft áhrif hér á landi. Til dæmis getur hækkun vaxta í ríkjum með lága vexti haft áhrif á vaxtamunaviðskipti hér á landi. Að sama skapi hefur þess orðið vart að þróun á Íslandi hefur haft áhrif á erlendum mörkuðum.