Formleg opnun sendiráðs Íslands í Suður-Afríku
Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra opnaði í dag sendiráð Íslands í Pretoríu í Suður-Afríku með formlegum hætti, en eins og kunnugt er flutti sendiráðið frá Mapútó í Mósambík fyrir nokkru. Við opnunina hélt, auk utanríkisráðherra, Aziz Pahad varautanríkisráðherra ávarp. Sendiherra Íslands er dr. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir.
Fyrsta verk sendiráðsins var að ráðherra kynnti, að Miriam Makeba söngkonu viðstaddri, framlag íslenskra stjórnvalda til heimilis sem hún rekur fyrir stúlkur sem annars væru á götinni. Þá var einnig tilkynnt um framlag íslenskra fyrirtækja og félagasamtaka til heimilis Makeba, en mörg þeirra voru meðal fyrirtækja sem taka um þessar mundir þátt í viðskiptasendinefnd til Suður-Afríku. Makeba þakkaði íslensku þjóðinni og ríkisstjórninni framlagið.
Fyrr um daginn var kynning á Íslandi, fjárfestingakostum og viðskiptatækifærum sem skipulögð voru af Útflutningsráði Íslands og viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins. Fyrirtækin eru í Suður-Afríku í fyrstu viðskiptasendinefndinni frá Íslandi sem þangað hefur komið.
Á morgun á ráðherra fund með Nkosazana Dlamini Zuma utanríkisráðherra Suður-Afríku, áður en hún heldur ásamt viðskiptasendinefndinni til Höfðaborgar.