UT DAGURINN
Forsætis- og fjármálaráðuneyti standa að undirbúningi UT-dagsins sem haldinn verður 8. mars nk. Lögð verður áhersla á mikilvægi upplýsingatækninnar sem verkfæris til að minnka skriffinnsku, spara tíma og auka hagræði. Ýmislegt er á döfinni í tengslum við UT-daginn. Á ráðstefnu sem haldin verður í Salnum í Kópavogi í tilefni dagsins verða kynnt nokkur af stærstu verkefnum ríkis og sveitarfélaga í rafrænni stjórnsýslu. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Nýtum tímann – Notum tæknina," og verður þar fjallað meðal annars um rafræn skilríki, vefinn Ísland.is og rafræn innkaup. Þann 3. mars verður gefið út efnismikið blað, UT-blaðið, þar sem einnig verður fjallað um nokkur mikilvæg verkefni í rafrænni stjórnsýslu.
Verkefnið um rafræn skilríki hefur verið í þróun á vegum fjármálaráðuneytis og Sambands banka og verðbréfafyrirtækja síðustu ár. Með rafrænu skilríkjunum munu aðilar geta auðkennt sig með öruggum hætti og í framtíðinni munu þau m.a. koma í stað fjölda notendanafna og lykilorða sem fólk þarf að muna í dag. Með skilríkjunum munu aðilar einnig geta skrifað rafrænt undir skjöl og skuldbindingar og þannig sparað tíma, ferðir og fjármuni. Rafræn skilríki munu verða lykill að rafrænu Íslandi og gera fólki og fyrirtækjum kleift að fara alla leið með sín mál á netinu. Mikilvægur áfangi í verkefninu verður kynntur á ráðstefnunni, en stefnt er að því að hefja dreifingu skilríkja á debetkorti til almennings og fyrirtækja síðar á þessu ári.
Fjármálaráðuneytið mun einnig kynna sérstaka stefnu um rafræn opinber innkaup sem setur meginmarkmið um að allar stofnanir ríkisins geti stundað innkaup sín að öllu leyti með rafrænum hætti fyrir árslok 2009. Sérstaklega er stefnt á að geta tekið við rafrænum reikningum á þessu ári.
Þjónustuvefurinn Ísland.is, verður opnaður almenningi 7. mars. Ísland.is er þjónustuveita með heildstæðum upplýsingum um þjónustu ríkis og sveitarfélaga og verður þar hægt að nálgast nánast alla þá gagnvirku þjónustu sem í boði er á vegum opinberra aðila. Vefurinn verður kynntur á ráðstefnu UT-dagsins.
Á ráðstefnunni verður að auki fjallað um ýmis önnur mikilvæg verkefni á vegum ríkis og sveitarfélaga sem lúta að rafrænni stjórnsýslu. Öll eiga þau það sameiginlegt að gera samskipti stjórnsýslunnar við almenning og fyrirtæki einfaldari, skilvirkari og hagkvæmari.
Þetta er í annað skipti sem UT-dagurinn er haldinn, en sá fyrsti fór fram 24. janúar 2006. UT-dagurinn verður að þessu sinni haldinn í tengslum við sýninguna Tækni og vit 2007, fagsýningu tækni- og þekkingariðnaðarins, sem mun fara fram í Fífunni í Kópavogi dagana 8. - 11. mars. Gestum ráðstefnunnar í Salnum er jafnframt boðið á opnun Tækni og vits, sem hefst kl. 17:00. Ráðstefnan er öllum opin en tilkynna þarf þátttöku á [email protected]
Dagskrá UT-dagsins verður jafnframt send út beint á Netinu á vefnum http://ut.is/.
Nánari upplýsingar veita:
Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti
Sími: 545-8470; netfang: [email protected]
eða
Haraldur Sverrisson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneyti
Sími: 545-9218, netfang: [email protected]
Reykjavík 26. febrúar 2007