Umhverfisráðherra mælir fyrir frumvarpi um breytingu á náttúruverndarlögum
Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra mælir í dag á Alþingi fyrir frumvarpi til laga um breytingu á náttúruverndarlögum. Samkvæmt því verður kæruaðild samkvæmt náttúruverndarlögum rýmkuð þannig að hún nái til umhverfisverndarsamtaka og útivistarsamtaka.
Í vetur kom til umfjöllunar hjá umhverfisráðuneytinu mál sem varðaði nám hrafntinnu á friðlýstu svæði. Þá hefur athygli umhverfisráðuneytisins verið vakin á fágæti og háu verndargildi silfurbergs. Þetta gefur að mati ráðuneytisins tilefni til að styrkja ákvæði náttúruverndarlaga um vernd slíkra sérstæðra fyrirbrigða í náttúrunni. Að fengnum tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar leggur umhverfisráðherra því til að ákvæði náttúruverndarlaga um friðlýsingu verði styrkt þannig að þau nái til bergtegunda og bergforma. Einnig er lagt til að kveðið verði á um í frumvarpinu að óheimilt sé að losa um, nema á brott eða skemma sjaldgæfar tegundir steinda og bergs sem friðunarákvæði gilda um. Loks er lagt til að óheimilt sé að nema brott eða losa steingervinga af fundarstað.
Meginregla stjórnsýsluréttarins varðandi kæruaðild er sú að aðeins þeir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta geti kært stjórnvaldsákvörðun. Á sviði umhverfisréttarins er hins vegar viðurkennt að kæruaðild geti verið rýmri en á öðrum sviðum og á sviði náttúruverndar gildir svokallaður almannaréttur, réttur til umferðar um landið og náttúrupplifunar. Umhverfisráðherra telur því rétt að rýmka kæruaðild samkvæmt náttúrverndarlögum þannig að hún nái einnig til umhverfisverndarsamtaka og útivistarsamtaka. Gerir frumvarp umhverfisráðherra því ráð fyrir breytingum í þá veru.