Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra Evrópusambandsins ánægður með árangur Íslands í loftslagsmálum

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra og Stavros Dima, umhverfisráðherra umhverfisráðuneytisins.
Umhverfisráðherra og Stavros Dima

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra átti í dag fund með Stavros Dimas ráðherra umhverfismála í Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Á fundinum ræddu ráðherrarnir um loftslagsbreytingar og þá samninga sem framundan eru milli þjóða heims um aðgerðir gegn losun gróðurhúsalofttegunda eftir 2012, þegar Kyoto bókunin fellur úr gildi.

Ánægja með loftslagsstefnu Íslands

Umhverfisráðherra kynnti nýsamþykkta stefnumörkun íslensku ríkistjórnarinnar í loftslagsmálum og markmið um 50-70% minnkun nettólosunar gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2050 og jafnframt hvaða leiðir ríkisstjórn Íslands leggur áherslu á að farnar verði til að ná þessu markmiði.

Stavros Dimas lýsti ánægju með nýja stefnu Íslands í loftlagsmálum og framkvæmd Kyoto bókunarinnar á Íslandi, sem hann hafði fregnað að gengi vel. Þá undirstrikaði Dimas mikilvægi þess að tækniþekking Íslendinga á nýtingu jarðhita yrði aðgengileg og nýtt sem víðast í heiminum. Það mundi gagnast vel baráttunni við loftlagsbreytingar.

Sammála um framhald Kyoto bókunarinnar

Umhverfisráðherra lagði áherslu á að í samningum um aðgerðir í loftslagsmálum eftir 2012 næðist mun víðtækari samstaða ríkja um aðgerðir en væri í Kyoto bókuninni. Til að árangur næðist í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum yrðu öll iðnríki og a.m.k. stærstu þróunarríkin að taka á sig skuldbindingar og takmarkanir á losun á næsta samningstímabili. Ennfremur lagði ráðherra áherslu á að mikilvægt væri að skoða sérstaklega sameiginleg samningsmarkmið og skuldbindingar fyrir atvinnugreinar óháð ríkjum, til þess að tryggja eftir megni að menn beiti bestu tækni alls staðar, þannig að fyrirtæki flyttu sig ekki milli ríkja til að losna undan strangari kröfum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Stavros Dimas sagði að Evrópusambandið mundi styðja þessa nálgun í komandi samningum.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá flugumferð

Þá ræddu ráðherrarnir um tilskipun Evrópusambandsins um viðskipti með losunarheimildir og sérstaklega í því sambandi fyrirhugaðar breytingar sem væntanlega taka til losunar frá flugumferð til og frá ríkjum Evrópusambandsins frá árinu 2012. Þær breytingar munu hafa áhrif á allt flug til og frá ríkjum Evrópusambandsins og þannig á íslensku flugfélögin. Spurði umhverfisráðherra m.a. hvort Evrópusambandið hefði látið athuga áhrif þessar tilskipunar á alþjóðlega samkeppni í flugrekstri. Fram kom að Framkvæmdastjórnin telur ekki að þessar aðgerðir muni skekkja samkeppni í flugi og að mikill og vaxandi stuðningur almennings við þessar breytingar muni auðvelda mjög framkvæmdina.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta