Aðgerðaáætlun gegn ofbeldi kynnt á 51. kvennanefndarfundi SÞ í New York
Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra kallaði ofbeldi gegn börnum „andstyggileg mannréttindabrot“ á 51. kvennanefndarfundi Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í New York. Aðalefni fundarins er mismunun og ofbeldi gegn stúlkubörnum.
Í ávarpi sínu á fundinum tók Magnús Stefánsson undir þá niðurstöðu skýrslu SÞ um ofbeldi gegn stúlkum að það væri á ábyrgð ríkja að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana og nefndi sérstaklega aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis sem tekur til áranna 2006 til 2011.
„Með áætluninni er lögð áhersla á að koma í veg fyrir heimilisofbeldi og kynferðislegt ofbeldi og að veita bæði brotaþolum og ofbeldismönnum meðferð,“ sagði félagsmálaráðherra og vakti athygli á nauðsyn þess að karlar tækju þátt í þeirri baráttu, þar sem karlar væru einatt valdir að ofbeldisbrotum gegn konum. „Menntun heilbrigðisstarfsfólks, opinberra starfsmanna, kennara og lögreglu er sett á oddinn ásamt almennri fræðslu um heimilis- og kynferðisofbeldi.“
Magnús Stefánsson ræddi jafnframt um ofbeldi gegn börnum, einkum stúlkum, í tengslum við mansal og ófrið og gat þess að íslensk stjórnvöld hefðu nýverið veitt fé til aðgerða í Sierra Leone gegn barnahermennsku og til að auðvelda börnum sem hefðu verið þvinguð til hermennsku afturhvarf til eðlilegs lífs.
Ráðherra fór yfir stöðu jafnréttismála á Íslandi hvað snertir menntun, atvinnuþátttöku, launamun og fæðingarorlof, bæði í meginávarpi sínu og ræðum á hliðarviðburðum sem haldnir eru í tengslum við 51. kvennanefndarfund SÞ.
Athyglisverðir hliðarviðburðir
Fulltrúar Íslands ásamt fulltrúum Danmerkur og Noregs stóðu fyrir viðburði undir yfirskriftinni The Nordic Father: Role Model for a Caring Male? Magnús Stefánsson opnaði fundinn og Ingólfur V. Gíslason, sviðsstjóri rannsóknarsviðs Jafnréttisstofu, sagði frá íslensku fæðingarorlofslöggjöfinni og áhrifum hennar á íslenskt samfélag.
Fundarstjóri var Øystein Gullvåg Holter, frá Norrænu stofnuninni fyrir kvenna- og kynjarannsóknir (NIKK), og aðrir framsögumenn voru Vibeke Abel frá félags- og jafnréttismálaráðuneyti Danmerkur, Arni Hole frá barna- og jafnréttismálaráðuneyti Noregs og Per Kristian Dotterud, framkvæmdastjóri Reform í Noregi.
Félagsmálaráðuneytið og nokkur frjáls félagasamtök efndu einnig til hliðarviðburðar um leiðir sem farnar hafa verið á Íslandi í því skyni að ná fram jafnrétti. Jafnréttisþróunin á Íslandi sker sig að sumu leyti frá þróuninni í öðrum ríkjum Norðurlanda, svo sem hvað varðar kvennafrídag, kvennalista, fæðingarorlofslögin og þátttöku karla í jafnréttisbaráttunni.
Fundarstjóri var Ásta Möller alþingiskona en framsögumenn Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra, Sjöfn Vilhelmsdóttir, framkvæmdastjóri UNIFEM á Íslandi, Margrét Pála Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hjalla ehf., Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, Þorbjörg Inga Jónsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands, og Ingólfur V. Gíslason, sérfræðingur á Jafnréttisstofu.
Allar aðildarþjóðir SÞ eiga rétt til setu á fundum kvennanefndar samtakanna (Commission on the Status of Women, CSW). Þjóðirnar skiptast á að sitja í nefndum og eiga áheyrnarfulltúa. Ísland átti nú sæti í nefndinni.