Aðgerðir til að lækka matvælaverð á Íslandi
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 1. mars 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Með lögum nr. 175/2006 sem samþykkt voru 20. desember 2006 og koma til framkvæmda í dag lækkar virðisaukaskattur á öll matvæli í 7%.
Allur þorri matvæla bar áður 14% skatt og nokkrar vörur 24,5%. Lækkun þessi nær einnig til veitingahúsa, mötuneyta og hliðstæðra aðila. Ennfremur verða vörugjöld af matvælum öðrum en sykri felld niður, en þau voru mismunandi eftir vöruflokkum. Innflutningstollur af kjötvörum verður lækkaður um 40% á alls 870 tonna innflutningi kjöts. Virðisaukaskattur á annarri vöru og þjónustu sem til þessa hefur verið í 14% skattþrepi lækkar einnig í 7%. Sú lækkun nær til eftirfarandi þátta.
- Útleigu hótel- og gistiherbergja svo og önnur gistiþjónusta.
- Afnotagjalds útvarps- og sjónvarpsstöðva.
- Tímarita, dagblaða, landsmála- og héraðsfréttablaða.
- Bóka, frumsaminna sem þýddra, sem og hljóðupptökur af lestri slíkra bóka.
- Sölu á heitu vatni, rafmagni og olíu til hitunar húsa og laugarvatns.
- Aðgangs að vegamannvirkjum.
Þá lækkar virðisaukaskattur á geisladiskum, hljómplötum, segulböndum og sambærilegum miðlum með tónlist (ekki mynd) einnig niður í 7%.