Ávarp Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra á ráðstefnu VFÍ og TFÍ
Ágætu ráðstefnugestir !
Yfirskrift þessarar ráðstefnu Verkfræðingafélags Íslands og Tæknifræðingafélags Íslands er nýting fallvatna og jarðhita í sátt við umhverfi sitt. Umræða um þessi mál er á fleygiferð og vel til fundið hjá verkfræðingum og tæknifræðingum að standa fyrir ráðstefnu eins og þessari.
Togstreita á milli nýtingar auðlinda og náttúruverndar er ekki ný af nálinni. Það er mikilvægt að halda því til haga að náttúruvernd er ein tegund landnýtingar, þar sem ákveðið er að taka tiltekið landsvæði til verndar. Fyrirhugaður Vatnajökulsþjóðgarður er gott dæmi um slíka landnýtingu. Gangi öll þau áform eftir verður um að ræða rúmlega 13 þúsund ferkílómetra landsvæðis og mat ráðgjafa er að áhrif hans á ferðaþjónustu verði það jákvæð að auknar gjaldeyristekjur vegna þjóðgarðsins verði árlega 3 til 4 milljarðar þegar hann verður að fullu kominn í gangið 2012. Verndun náttúrufars sem á óvíða sinn líka á heimsvísu mun hafa aðdráttarafl langt út fyrir landsteinana og hún getur hæglega aukið hagsæld þjóðarinnar sé vel að verki staðið.
Ég legg á það áherslu að verndun og nýting þurfi ekki alltaf að vera andstæður. Ólík sýn manna til orkunýtingar og verndunar eru mikið bitbein í samfélagsumræðunni, það er ekkert óeðlilegt að tekist sé á. Framtíðarsýn er afar mikilvæg og er frumvarp iðnaðarráðherra og bráðabirgðaákvæði þess afar mikilvægt tæki til að leiða þessi mikilvægu mál í gagnlegan farveg. Gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hefur tekið lengri tíma en æskilegt væri. Afar brýnt er að það verk taki brátt enda og nauðsynlegar rannsóknir á náttúru- og umhverfisverðmætum jarðhitavirkjana ásamt hagkvæmnismati hvers um sig verður að ljúka sem fyrst. En hvað sem því líður er ég þeirrar skoðunar að raunhæfum og raunsæjum virkjunarkostum á miðhálendi Íslands fari fækkandi. Sjálf er ég efins um verulega virkjun jarðahitans í Kerlingarfjöllum og á Torfajökulssvæðinu þar sem einstakt landslag og umhverfi er í húfi ásamt öræfakyrrð hálendisins.
Á hinn bóginn skulum við ekkert horfa fram hjá því að okkar endurnýjanlega orka í fallvötnum og jarðhita er eftirsótt og þar með verðmæt. Loftlagsbreytingarnar eru staðreynd og niðurstöður 4. skýrslur Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir stuttu marka ákveðin tímamót í þeirri umræðu. Við skulum líka hafa það hugfast að hlýnun andrúmslofts jarðar er fyrst og fremst orkuvandi heimsins. Til að uppfylla daglega orkuþörf jarðarbúa er daglega brennt gríðarlegu magni jarðefnaeldsneytis, en hér á landi er um 70% orkuöflunar frá endurnýjanlegum og hreinum orkugjöfum. Ísland fyrirmyndarland hvað þessi mál áhrærir og við berum okkar ábyrgð og getum ekki vikist undan því að leggja okkar af mörkum við það að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Ríkisstjórnin hefur nýverið samþykkt stefnumörkun um aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálin og þar er lögð til metnaðarfull framtíðarstefna til ársins 2050.
Langtímaáætlun um verndun og nýtingu auðlinda verður ekki slitin úr samhengi við skipulag og hugsun skipulagsmála. Skipulagsvaldið er á könnu sveitarfélaganna í formi aðal- deili- og stundum einnig svæðisskipulags. Það er grundvallaratriði að vandað sé til verka við gerð skipulags og leitað sé eftir sjónarmiðum þeirra sem skipulagið snertir. Ekki síst er mikilvægt að skipulagsyfirvöld taki ákvarðanir sem eru í sem mestri sátt við þá íbúa og aðra þá sem í hlut eiga. Við ákvörðun um skipulag þarf því oft að horfa til andstæðra sjónarmiða og mikilvægt er að þau sé skoðuð gaumgæfilega og fundin sé farvegur sátta.
Síðar í dag mun ég mæla fyrir frumvarpi til nýrra skipulagslaga. Um leið og lögð er áhersla á forræði sveitarfélaga á skipulagsmálum er með frumvarpinu viðurkennd þörf á að ríkisvaldið leggi til heildstæða sýn í skipulagsmálum í svokallaðri landsskipulagsáætlun sem lögð verði til grundvallar við skipulagsgerð sveitarfélaga. Hér er fyrst og fremst um að ræða stefnumótun um landnotkun sem varðar almannahagsmuni svo sem um grunngerð á landsvísu eins og samgöngukerfi, orkuöflunar- og dreifikerfi, náttúruvernd, útivist og aðra landnotkun á svæðum sem varðar þjóðarhagsmuni eins og á miðhálendi Íslands þar sem horft er til þess hvernig framtíðarnotkun lands eigi að vera á því svæði svo sem með tilliti til orkunýtingar, náttúruverndar og umferðar.
Þannig er landsskipulagsáætlun fyrir miðhálendi Íslands stefnumörkun ríkisvaldsins nær til nokkurra tegunda mannvirkja og framkvæmda, en hún væri jafnframt heildstæð áætlun um verndun svæða á miðhálendi Íslands sem samkomulag væri um að ekki eigi að nýta til framkvæmda heldur halda sem ósnortnum til upplifunar og útivistar.
Ágætu ráðstefnugestir, ég vil að lokum óska ykkur góðs gengis hér í dag með þessi mikilvægu mál sem þið hafið hér til umfjöllunar.