Breytt skipulag samgönguráðuneytis
Nýlega gengu í gildi breytingar á skipulagi samgönguráðuneytisins. Markmiðið með breytingunum er að auka skilvirkni og bæta verklag ráðuneytisins og einstakra eininga þess. Aukin áhersla verður lögð á forgangsröðun verkefna, eftirfylgd og mat á árangri.
Starfssviðum einstakra skrifstofa ráðuneytisins er breytt nokkuð og um leið vettvangur stjórnenda ráðuneytisins hefur verið endurskilgreindur. Lögð verður aukin áhersla á að skilgreina vald og ábyrgð einstakra verkefna þar sem þess er talin þörf. Starfsmannamál fá aukið vægi með nýrri starfsmannastefnu og efla á þjálfun og fræðslu innan ráðuneytisins til að styrkja hæfni einstaklinga með hliðsjón af stjórnun og faglegri vinnu almennt.
Nýtt skipurit
Nýtt skipurit á að endurspegla það markmið að auðvelda framkvæmd stefnumörkunar og tryggja góða stjórnsýslu. Starfseminni verður skipt niður á þrjár kjarnaskrifstofur og eina stoðskrifstofu auk skrifstofu yfirstjórnar:
Skrifstofa yfirstjórnar.
Almenn skrifstofa.
Skrifstofa flutninga og framkvæmda.
Skrifstofa fjarskipta og öryggismála.
Skrifstofa ferðamála.
Auk þessara skrifstofa verður komið á fót samgönguteymi og þróunarteymi. Skrifstofustjórar stýra daglegu starfi skrifstofanna og sérfræðingar sérhæfa sig í málefnum sinna sviða.
Skrifstofa yfirstjórnar
Á skrifstofu yfirstjórnar starfa ráðuneytisstjóri, skrifstofustjóri, aðstoðarmaður ráðherra, upplýsingafulltrúi, ritari ráðherra, ritari ráðuneytisstjóra og bílstjóri ráðherra. Verkefni yfirstjórnar eru einkum tengd daglegu starfi ráðherra. Þá er verkefni hennar að fylgjast með framvindu mála ráðuneytisins á Alþingi og undirbúa svör vegna fyrirspurna þingmanna. Einnig tilheyra skrifstofu yfirstjórnar verkefni er lúta að upplýsinga- og útgáfumálum, loftferðasamningum og póstmálum og hún annast samskipti við rannsóknarnefndir á sviði flugslysa, sjóslysa og umferðarslysa.
Almenn skrifstofa
Almenn skrifstofa er stoðsvið við aðrar skrifstofur ráðuneytisins og sér auk þess um fjármálastjórn og rekstur ráðuneytisins. Hún hefur umsjón með gæðamálum, stjórnar undirbúningi verkáætlana, gerð og eftirfylgd árangursstjórnunarsamninga og árangursmælikvarða á starfsemi ráðuneytisins. Skrifstofan hefur umsjón með fjárlagagerð fyrir aðalskrifstofu ráðuneytisins og undirstofnana þess, lögfræði og stjórnsýsluháttum ráðuneytisins, vinnslu stjórnsýsluúrskurða og úrvinnslu erinda frá öðrum stjórnvöldum. Einnig hefur hún umsjón með vinnu ráðuneytisins vegna þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu. Þá fer skrifstofan með starfsmannamál og mannauðsmál, stýrir afgreiðslu og skjalavörslu og hefur umsjón með tölvumálum og sér um verkefni sem snýst um að draga úr skriffinnsku á vegum samgönguráðuneytisins.
Skrifstofa flutninga og framkvæmda
Undir skrifstofu flutninga og framkvæmda heyra mál á sviði heildaráætlana í samgöngumálum, gerð samgönguáætlunar til fjögurra og tólf ára og stefnumótun í flutningaþjónustu. Áætlanirnar eru í stöðugri endurskoðun og eru grundvöllur að fjárveitingum og forgangsröðun framkvæmda í samgöngumannvirkjum. Þá sér skrifstofan um stefnumótun í flutningaþjónustu, svo sem leikreglur farm- og fólksflutninga, bílaleigu-, leigubifreiða-, sérleyfa- og neytendamál á sviði fólksflutninga. Að auki sér skrifstofan um verkefni varðandi rekstur og þjónustu samgöngumannvirkja. Skrifstofan annast samskipti við Flugmálastjórn, Siglingastofnun og Vegagerðina.
Skrifstofa fjarskipta og öryggismála
Hlutverk skrifstofu fjarskipta og öryggismála er tvíþætt. Annars vegar mál er varða stefnumótun og aðgerðir sem fela í sér hagkvæm, örugg og aðgengileg fjarskipti en í því felst gerð og framkvæmd langtímafjarskiptaáætlunar. Snýst hún meðal annars um aðgengi almennings að háhraðatengingum, bætt fjarskiptasamband á þjóðvegum, öryggi upplýsinga í fjarskiptum og ýmislegt er varðar tækninýjungar. Hins vegar sér skrifstofan um gerð og framkvæmd þess hluta samgönguáætlunar sem snýr að umferðaröryggi, gerð langtímaáætlunar í öryggismálum sjófarenda og stefnumótun í öryggismálum í flugsamgöngum og samræmir öryggiskröfur í gegnum alþjóðlegt samstarf. Skrifstofan annast samskipti við Póst- og fjarskiptastofnun, Umferðarstofu, Flugmálstjórn og Siglingastofnun.
Skrifstofa ferðamála
Skrifstofa ferðamála vinnur að langtímastefnumótun í ferðamálum. Hún ábyrgð á gerð ferðamálaáætlunar sem nú gildir fyrir árin 2006 til 2015, gerð lagafrumvarpa, reglugerða og endurskoðun laga um ferðamál. Meðal verkefna skrifstofunnar er að efla vöxt og nýsköpun í íslenskri ferðaþjónustu. Er henni einnig ætlað að móta stefnu um hvernig háttað skuli samstarfi hins opinbera við einkaaðila á sviði ferðamála. Skrifstofan annast samskipti við Ferðamálastofu.
Tvö ný teymi
Samgönguteymi er ætlað að bæta vinnu við undirbúning samgönguáætlunar og tryggja aðkomu og samráð þeirra skrifstofa sem málið varðar. Í teyminu eiga sæti fulltrúar þeirra skrifstofa sem koma að samgönguáætlun.
Þróunarteymi verður ráðgefandi vettvangur um fortíð, nútíð og framtíð ráðuneytisins. Teymið starfar í upphafi samkvæmt lýsingu sem endurskoðuð verður að sex mánuðum liðnum. Því er ætlað að vera þverfaglegur vettvangur innan ráðuneytisins til að ræða árangur, hvort hann sé í takt við framtíðarsýn svo og að fjalla um breytingar í starfsumhverfi ráðuneytisins. Áhersla verður lögð á að leita eftir sjónarmiðum sem flestra innan ráðuneytisins og skoðana hagsmunaaðila. Ráðuneytisstjóri stýrir teyminu og sitja í því ásamt honum skrifstofustjórar ráðuneytisins.