Dansk-íslenskt samstarfsverkefni um stuðning við dönskukennslu
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Bertel Haarder, menntamálaráðherra Danmerkur, undirrituðu í dag, 1. mars 2007, samning milli landanna um sérstakan stuðning við dönskukennslu á Íslandi. Samningurinn nær til fimm ára, frá 1. ágúst 2007 - 31. júlí 2011 og er framhald af tveimur fyrri samningum um stuðning við dönskukennslu á tímabilinu 2001 - 2003 og 2003 - 2007. Fjárveitingar Dana til þessa fimm ára verkefnis nema um 30 milljónum íslenskra króna árlega en fjárframlag Íslendinga 6 milljónum. Sérstök samstarfsnefnd Dana og Íslendinga hefur umsjón með framkvæmd samningsins.
Í samningnum er m.a. kveðið á um ráðningu dansks lektors eða annars sendikennara við Kennaraháskóla Íslands, tveggja danskra farkennara fyrir grunnskóla landsins, aðstoðarkennara við framhaldsskóla og sérstök verkefni á sviði endurmenntunar kennara og námsefnisgerðar. Einnig er í samningnum kveðið á um árlegar styrkveitingar til íslenskra nemenda í dönskunámi á háskólastigi til námsferða til Danmerkur.
Upphaf samningsins má rekja til samstarfsverkefnis landanna um eflingu dönskukennslu og miðlun danskrar menningar á Íslandi frá árinu 1996 sem dönsk stjórnvöld hafa fjármagnað allar götur síðan. Fjárveitingar Dana til þessa verkefnis hafa árlega numið um 20 milljónum íslenskra króna.