Ferðamálaráð andvígt heilsársvegi um Kjöl
Ferðamálaráð leggst alfarið gegn hugmyndum um heilsársveg yfir Kjöl en telur að skoða beri til hlítar mögulegan ferðamannaveg, eins og fram kemur í núverandi skipulagi miðhálendisins, segir í ályktun sem ráðið samþykkti á fundi sínum nýverið.
Norðurvegur ehf. kynnti fyrir nokkru hugmyndir um lagningu nýs Kjalvegar sem gera ráð fyrir rúmlega eins metra háum og 8,5 m breiðum vegi með bundnu slitlagi milli Gullfoss og Silfrastaða í Skagafirði. Mun hið nýja vegarstæði að hluta til liggja yfir ósnortið land. Í ályktun ferðamálaráðs segir meðal annars:
,,Samgönguráðherra fól ferðamálaráði að fara yfir málið frá sjónarhóli ferðaþjónustunnar og voru því fulltrúar Norðurvegar ehf., Vegagerðarinnar, Ferðafélags Íslands, Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar fengnir til að gera grein fyrir afstöðu sinni á fundi ráðsins þann 21. febrúar s.l.
Ferðamálaráð telur að uppbyggður heilsársvegur yfir Kjöl, hannaður fyrir þungaflutninga, sé í andstöðu við framtíðar hagsmuni íslenskrar ferðaþjónustu. Lagning slíks vegar myndi svipta svæðið bæði kyrrð og öðrum sérkennum öræfanna en slík verðmæti eru vandfundin og því afar mikils virði.
Hálendisferðir eru upplifun sem fjöldi innlendra og erlendra ferðamanna metur mjög mikils og munu í auknum mæli sækjast eftir í framtíðinni.
Einnig er óljóst hvort stóraukin umferð þungaflutninga um uppsveitir Árnessýslu og dali Skagafjarðar sé heimamönnum þóknanleg. Með slíkum vegi muni svæðið einnig kalla á margvíslega þjónustu uppi á hálendinu, sem yrði til mikilla lýta auk þess að auka álag á viðkvæm svæði.
Ferðamálaráð leggst því alfarið gegn hugmyndum um lagningu uppbyggðs heilsársvegar yfir Kjöl en telur að skoða beri til hlítar mögulegan ferðamannaveg, eins og fram kemur í núverandi skipulagi miðhálendisins.”