Kynning á nýrri námskrá í tækniteiknun
Menntamálaráðuneytið hefur birt drög að nýrri námskrá í tækniteiknun á vefsvæði sínu menntamalaraduneyti.is. Námskráin tekur mið af breytingum sem orðið hafa á starfssviðum tækniteiknara m.a. með aukinni tölvutækni. Færnikröfur starfa í tækniteiknun hafa að undanförnu m.a. þróast í þá veru að auk sérhæfðra teiknistarfa þurfa tækniteiknarar að vera færir um að annast kerfisstjórnun teiknikerfa, hafa faglega umsjón með teikningum og tilheyrandi gögnum, stjórna skjalavistun og annast framsetningu og kynningu gagna á sínum vinnustað.
Námskrárdrögin verða til kynningar á framangreindu vefsvæði til 27. mars nk. Á þeim tíma gefst hagsmunaaðilum og almenningi kostur á að senda athugasemdir og ábendingar um námskrána í heild eða einstaka þætti hennar til ráðuneytisins. Einnig er hægt að senda athugasemdir á netfangið [email protected] . Að loknu umsagnarferlinu mun ráðuneytið gera þær lagfæringar á námskránni sem nauðsynlegar teljast, staðfesta hana og senda auglýsingu um gildistöku hennar til birtingar í Stjórnartíðindum. Námskráin verður að því loknu birt á námskrárvef ráðuneytisins.
Gert er ráð fyrir að námskráin taki gildi frá og með upphafi næsta skólaárs 2007-2008. Farið er vinsamlega fram á að efni þessa bréfs sé kynnt fyrir þeim sem það á erindi við.