Hoppa yfir valmynd
2. mars 2007 Innviðaráðuneytið

Íslensk ferðaþjónusta í sterkri stöðu

Samkeppnisstaða íslenskrar ferðaþjónustu er í fjórða sæti af 124 löndum samkvæmt könnun Alþjóðlegu efnahagsstofnunarinnar, World Economic Forum. Iðntæknistofnun er samstarfsaðili stofnunarinnar hér á landi en hún hefur meðal annars það hlutverk að fylgjast með framleiðni einstakra atvinnugreina.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir þetta sýna bæði sterka stöðu atvinnugreinarinnar og að stjórnvöld séu á réttri leið í því að skapa henni samkeppnishæft starfsumhverfi.

Alþjóðlega efnahagsstofnunin hefur frá árinu 1979 sinnt rannsóknum á samkeppnishæfni landa. Samkeppnisvísitalan er mæld út frá allmörgum stoðum, svo sem stefnumótandi reglum, umhverfisreglugerðum, öryggi, hreinlæti, skipulagi samgangna og ferðamennsku, verðsamkeppni og náttúrulegum og menningarlegum verðmætum. Margar þessara stoða eru á sviði samgönguráðuneytisins og sýna svo ekki verður um villst nauðsyn þess að samþætta skipulag samgangna og fjarskipta við þróun ferðaþjónustunnar.

Ein stoðin eru stefnumótandi reglur en samgönguráðuneytið hefur undanfarin ár farið nýjar leiðir í að móta stefnu í ferðaþjónustu til framtíðar. Það voru því nýmæli er samgönguráðherra lagði fram á Alþingi ferðamálaáætlun fyrir tímabilið 2006-1015. Í kjölfarið hafa verið gerðar breytingar á lagaumhverfi ferðaþjónustunnar til að styrkja innviði hennar og einfalda leyfis- og tryggingamál hennar og meira er í farvatninu með frumvarpi um veitingastaði og gististaði sem nýlega var lagt fram á Alþingi.

,,Ísland getur vel við unað við að vera í fjórða sæti í þessari könnun en markið er sett hátt og því verður við endurskoðun ferðamálaáætlunar, sem er nýhafin, horft enn frekar en áður til þess að áætlunin sé samstiga öðrum áætlunum á sviði samgangna,” segir samgönguráðherra ennfremur. ,,Hér má einnig minna á það ákvæði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem segir að tryggja skuli að öflug samkeppni ríki á sem flestum sviðum atvinnulífsins til hagsbóta fyrir neytendur. Það er því sérstakt ánægjuefni að Alþjóðlega efnahagsstofnunin beini nú athygli sinni að ferðaþjónustunni. Umfang greinarinnar hérlendis fer mjög vaxandi og í alþjóðlegu samhengi er hún meðal mikilvægustu atvinnugreina og er víða sú grein sem aflar mestra gjaldeyristekna og skapar flest ný störf.

Þess vegna erum við á réttri leið með því að leggja áherslu á uppbyggingu og eflingu greinarinnar og jafnframt kynningu og markaðsstarf sem stjórnvöld vinna í samstarfi við ferðaþjónustufyrirtækin.”



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta