Hoppa yfir valmynd
7. mars 2007 Forsætisráðuneytið

Hvatning til notkunar vistvænna ökutækja

Ríkisstjórnin hefur samþykkt lagafrumvarp, sem ætlað er að hvetja til aukinnar notkunar á vistvænum ökutækjum. Þar er m.a. gert ráð fyrir að vörugjöld af metanbílum verði felld niður tímabundið (til ársloka 2008). Þá samþykkti ríkisstjórnin að mælast til þess við ríkisstofnanir að þær kaupi vistvæna bíla þegar þær endurnýja bílakost sinn. Markmiðið er að í lok árs 2008 verði 10% af bifreiðum í eigu ríkisins knúnar vistvænum orkugjöfum, 20% í lok árs 2010 og 35% í lok árs 2012.

Samkvæmt núgildandi lögum eru vörugjöld af bílum búnum vélum, sem nýta metangas eða rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu 240.000 kr. lægri en ella og ökutæki, sem eru knúin óhefðbundnum orkugjafa, svo sem rafhreyfli eða vetni eru alfarið undanþegin gjaldskyldu. Þessar sérreglur gilda til ársloka 2008 en fyrir þann tíma er gert ráð fyrir að mótuð verði heildarstefna um skattlagningu bifreiða sem nýta umhverfisvæna orkugjafa.

Auk þess sem þessar aðgerðir munu stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda munu þær einnig koma í veg fyrir þá sóun orku sem felst í því að brenna hauggas sem verður til úr lífrænu sorpi. Frá 1996 hefur hauggasi sem verður til á urðunarsvæði Sorpu í Álfsnesi verið safnað saman og það brennt þar sem veruleg gróðurhúsaáhrif hljótast af óheftu útstreymi hauggas af urðunarstað. Til að nýta orkuna úr hauggasinu stofnaði Sorpa ásamt Aflvaka fyrirtækið Metan hf. árið 1999 til að þróa, framleiða og markaðssetja orku úr hauggasi. Ári síðar var sett upp hreinsistöð í Álfsnesi þar sem metan var skilið úr hauggasinu og hreinsað til notkunar á ökutæki. Sama ár setti Essó upp afgreiðslubúnað fyrir metan á Bíldshöfða. Í dag eru um 50 ökutæki hér á landi sem ganga fyrir metani að hluta eða öllu leyti. Af þeim eru 2 strætisvagnar, 3 sorpbílar og einn krókbíll sem eingöngu ganga fyrir metani. Þessi ökutæki nota um 100 tonn af metani á ári sem er um 5% af heildarmetanframleiðslu í Álfsnesi. Áætlað er að einn bensínbíll mengi að jafnaði jafn mikið og 113 sambærileg ökutæki sem ganga fyrir metani.

Áætlað er að nægjanlegt gas geti fengist á hverju ári úr Álfsnesi til að fullnægja þörfum 4.000 smærri ökutækja. Sorpa hefur leyfi til að urða í Álfsnesi til ársins 2014 en jafnvel þó hætt verði að urða það árið má búast við að hægt verði að framleiða gas úr haugnum til a.m.k. ársins 2035. Í Álfsnesi er hauggasið tekið sem aukaafurð en hins vegar mætti einnig framleiða metan í verksmiðjum til að ná fram meiri nýtni og nota til þess nánast hvaða lífræna úrgang sem er. Flestir bifreiðaframleiðendur hafa nú á boðstólum eina eða fleiri tegundir fjölorkubíla. Í þeim eru venjulegar bensínvélar sem breytt er smávægilega svo þær geti einnig brennt metani. Einnig eru fáanlegar bifreiðar sem ganga eingöngu fyrir metani. Minna heyrist í metanbílum en venjulegum bílum og vélar í metanbílum endast lengur þar sem metanið er hreinna eldsneyti en bensín og olía. Metangas er auk þess ódýrara en bensín. Metanbílar eru einnig taldir öruggari en bensín- og dísilbílar samkvæmt norrænum, evrópskum, bandarískum og áströlskum rannsóknum. Ökumenn metanbíla yrðu varir við eldsneytisleka löngu áður en hætta væri á því að það kviknaði í metaninu því mjög sterku lyktarefni er blandað í það.

Reykjavík 7. mars 2007



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta