Ísland tvöfaldar framlag til Flóttamannaaðstoðar S.þ. fyrir Palestínumenn (UNRWA)
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 035
Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, átti í dag fund með Karen Koning AbuZayd, framkvæmdastjóra Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna fyrir Palestínumenn (UNRWA). Á fundinum ræddu þær um málefni palestínskra flóttamanna, flóttamannabúðir sem stofnunin starfrækir og ástandið á Gaza-svæðinu og Vesturbakkanum. Utanríkisráðherra lýsti því yfir að íslensk stjórnvöld ætla að tvöfalda framlag Íslands til stofnunarinnar, þ.e. úr tæpum 7 milljónum króna í tæpar 14 milljónir fyrir árið 2007.
UNRWA var stofnað með ályktun Allsherjarþings S.þ. nr. 302 (IV) 8. desember 1949 til að aðstoða palestínska flóttamenn. Stofnunin starfar á Gaza, Vesturbakkanum, Líbanon, Jórdaníu og Sýrlandi þar sem hún aðstoðar flóttafólk og sér þeim fyrir menntun, heilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð. Stofnunin veitir einnig neyðaraðstoð þegar aðstæður krefjast.
Palestínuflóttamenn sem eiga rétt á aðstoð UNRWA eru alls 4,3 milljónir.