Sátt um mikilvæg skref í jafnréttisbaráttunni
Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er haldinn hátíðlegur í dag. Jafnréttismál eiga að sjálfsögðu að vera til umfjöllunar og sýnileg á þeim degi og reyndar sérhvern dag á meðan við erum sammála um að enn sé talsvert langt í að fullt jafnrétti hafi náðst með konum og körlum hér á landi og meðal annarra þjóða. Þessi dagur undirstrikar jafnframt mikilvægi alþjóðlegs samstarfs á sviði jafnréttismála.
Við Íslendingar getum verið stoltir af mörgum skrefum sem við höfum stigið í jafnréttisátt. Ég er nýkominn af fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York en Ísland skipar nú í fyrsta sinn sæti Norðurlandanna í nefndinni til og með árinu 2008. Íslendingar voru mjög áberandi á fundinum og við efndum í fyrsta sinn til sérstakrar íslenskrar málstofu um jafnréttismál með þátttöku frjálsra félagasamtaka og sérfræðinga. Þar vakti til dæmis frásögn Margrétar Pálu Ólafsdóttur af Hjallastefnunni mikla athygli og kynning Ingólfs V. Gíslasonar, sérfræðings á Jafnréttisstofu, á fæðingarorlofi feðra. Þá vorum við jafnframt í forgrunni í sameiginlegri málstofu með Norðmönnum og Dönum þar sem fjallað var um fæðingarorlof feðra. Sérstaka athygli vakti yfir 90% þátttaka íslenskra feðra í fæðingarorlofi en frændþjóðir okkar á Norðurlöndum búa enn við mun minni þátttöku en við hér á landi. Við getum verið stolt yfir þessari einstöku þátttöku íslenskra feðra í umönnun barna sinna. Ég vænti þess að hún muni hafa víðtæk og jákvæð áhrif til frambúðar á samfélagið okkar almennt og á stöðu kynjanna á vinnumarkaði og stuðli að því að jafna launamun kynjanna og hafa áhrif á starfsval þeirra.
Á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna óskuðu margir eftir samstarfi við okkur Íslendinga á sviði jafnréttismála og segja má að eftirspurn sé eftir útrás okkar á því sviði. Fulltrúar Evrópuríkja sýndu áhuga á samstarfi við Íslendinga á þessu sviði og jafnframt óskuðu fulltrúar þróunarríkja eftir samstarfi við okkur á sviði jafnréttismála og mun ég beita mér fyrir viðræðum við utanríkisráðherra um möguleika á því.
En þrátt fyrir góðan árangur og mikilvæg skref megum við Íslendingar ekki sofna á verðinum. Í gær kynnti ég nýtt frumvarp til jafnréttislaga sem samið er af þverpólitískri nefnd undir forystu Guðrúnar Erlendsdóttur, fyrrverandi hæstaréttardómara. Þar er að finna mörg nýmæli og ég tel að formaðurinn hafi unnið afrek með því að ná í meginatriðum sátt um nýtt jafnréttislagafrumvarp sem færir okkur nýrri og betri tæki en áður til þess að vinna að jafnrétti kynjanna hér á landi.
Nú mun frumvarpið verða sett í almenna umsögn á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins og í framhaldi af því verður farið yfir athugasemdir og frumvarpið sett í endanlegan búning fyrir framlagningu fyrir Alþingi næsta haust. Þetta mál er þess eðlis að eðlilegt er að sem flestir fái tækifæri til þess að tjá sig um efni þess og hafa áhrif á það.
Sá kynbundni launamunur sem kom fram í könnun Capacent Gallup síðastliðið haust er að mínu mati brýnasta viðfangsefni jafnréttismála í dag. Niðurstöðurnar staðfesta í senn stöðnun í tæplega 16% launamun kynjanna en birta okkur hins vegar nýja sýn sem fram kemur í viðtölum við stjórnendur og launafólk. Svo virðist sem ungar konur séu ákveðnari en áður í að krefjast sjálfsagðs réttar síns bæði að því er varðar stjórnunarstöður og laun og er það vel. Jafnframt kom fram í niðurstöðum könnunarinnar að karlar væru nú ekki síður frá vinnu vegna veikinda barna en konur og að meirihluti þeirra sem þátt tóku í launakönnuninni og þeirra sem svöruðu Gallupvagninum töldu breytingar á fæðingarorlofslögunum hafa bætt stöðu kvenna á vinnumarkaði til muna. Þetta er vissulega jákvætt.
Ég hef rætt við aðila vinnumarkaðarins, fulltrúa SA, ASÍ, BHM, Sambands íslenskra sveitarfélaga, og fjármálaráðuneytið um aðgerðir til að vinna gegn launamun kynjanna. Í kjölfarið standa nú yfir viðræður um víðtæka samvinnu þessara aðila og gerð yfirlýsingar og aðgerðaáætlunar um jafnlaunamál. Ég bind miklar vonir við slíka samvinnu enda er grundvallaratriði að allir taki höndum saman, að bæði stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins leggi sitt af mörkum til að ná raunverulegum árangri.
Til hamingju með daginn, konur og karlar.