Hoppa yfir valmynd
8. mars 2007 Utanríkisráðuneytið

Yfirlýsing vegna ummæla framkvæmdastjóra ÞSSÍ í fjölmiðlum

Vegna ummæla Sighvats Björgvinssonar framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) og sendiherra í fjölmiðlum í dag vill utanríkisráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri:

Umrædd skýrsla um skipulag þróunarsamvinnu bíður framlagningar á Alþingi til kynningar og grundvallar upplýstri og málefnalegri umræðu um skipulag þróunarsamvinnu á Íslandi. Ekki er lagt fram lagafrumvarp samhliða skýrslunni og í tillögum skýrslunnar er ekki lagt til að ÞSSÍ verði lögð niður, heldur að núverandi starfsemi stofnunarinnar sameinist því starfi í þróunarmálum, sem unnið er á vettvangi utanríkisráðuneytisins. Tillögur þær sem fram koma í skýrslunni breyta engu um skuldbindingar ÞSSÍ og stofna starfsöryggi starfsmanna ekki í hættu. Markmið tillagnanna er að ná betri heildarsýn á þróunarsamvinnu Íslands og draga úr hættu á tvíverknaði í rekstri og stjórnun. Tillaga sú sem ráðherra mælir með er leið sem farin hefur verið í mörgum nágrannríkjum Íslands.

Vinnuferlið í tengslum við gerð umræddrar skýrslu var vandað og trúverðugt. Utanríkisráðherra átti fund með stjórn ÞSSÍ þann 13. nóvember á síðasta ári þar sem ráðherra greindi frá fyrirætlan sinni um að gera skýrslu um fyrirkomulag þróunarsamvinnu. Tveimur dögum síðar, þann 15. nóvember, skýrði ráðherra utanríkismálanefnd Alþingis frá fyrirætlunum sínum í þessa veru. Þann 24. nóvember hélt Þorsteinn Ingólfsson sendiherra, sem leiddi vinnuna fyrir hönd utanríkisráðherra, sérstakan fund með framkvæmdastjóra og stjórnarformanni ÞSSÍ. Málþing var haldið þann 17. janúar s.l. þar sem boðið var sérfræðingum og hagsmunaaðilum sem að þróunarmálum koma. Um 80 manns sóttu þingið. Haldnir voru á fimmta tug funda með fjölmörgum aðilum sem koma að þróunarsamvinnu, m.a. félagasamtökum, fulltrúum viðskiptalífs, frá háskólum, auk ýmissa sérfræðinga í þróunarsamvinnu. Auk þess var talað við alla þá starfsmenn ÞSSÍ sem náðist í. Rætt var við alla fulltrúa í stjórn stofnunarinnar að tveimur undanskildum sem ekki náðist í. Í gær lagði utanríkisráðherra skýrsluna fyrir utanríkismálanefnd. Henni er ætlað að verða umræðugrundvöllur fyrir nýja ríkisstjórn og nýtt þing til að taka endanlega afstöðu til skipulags þróunarsamvinnu á Íslandi. Þegar að loknum fundi í utanríkismálanefnd var öllum þeim aðilum sem að ferlinu komu, sem á annað borð höfðu netfang, send skýrslan með rafrænum hætti.

Með vísan í ofangreint er ummælum framkvæmdastjóra ÞSSÍ um efni skýrslunnar og vinnuferli henni tengdri algerlega hafnað.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta