Gengisbundin lán til heimila
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 8. mars 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Frá árinu 2005 hafa gengisbundin lán til íslenskra heimila aukist verulega.
Til viðbótar við gengisbundin bílalán eru vísbendingar um að fasteignalán í erlendri mynt hafi aukist að undanförnu, eftir að gengi krónunnar veiktist og innlendir vextir á íbúðalánum hækkuðu. Slíkum lánum fylgir gengisáhætta.
Eins og sjá má á myndinni hefur verðmæti gengisbundinna lána á föstu gengi aukist gríðarlega og sér í lagi á síðasta ári en miðað er við meðalgengi krónunnar árið 2002. Frá nóvember 2005 til júní 2006 veiktist gengi krónunnar um rúm 27% en sú lækkun útskýrir þó ekki nema hluta virðisaukningar gengisbundinna lána á sama tíma. Þannig námu gengisbundin lán um 26,8 milljörðum kr. í lok janúar 2006 á föstu gengi en um 67,5 milljörðum í janúarlok á þessu ári sem er aukning upp á rúm 150%.
Í árslok 2006 námu gengisbundin lán um 5,5% af heildarskuldum heimila við lánakerfið í heild og um 10,3% af heildarskuldum við innlánsstofnanir og hefur það hlutfall farið vaxandi á síðustu mánuðum á sama tíma og dregið hefur úr aukningu verðtryggðra útlána innlánsstofnanna. Frá þriðja ársfjórðungi síðasta árs hafa gengisbundin útlán innlánsstofnanna aukist verulega eins og myndin gefur til kynna.