Hoppa yfir valmynd
13. mars 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tekið á móti flóttamönnum á hverju ári

Að tillögu Magnúsar Stefánssonar félagsmálaráðherra og Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra hefur ríkisstjórnin markað þá stefnu að tekið verði á móti hópi flóttamanna hér á landi á hverju ári.

Magnús Stefánsson og Valgerður Sverrisdóttir undirrita yfirlýsingu um aðstoð við flóttafólkSamkvæmt yfirlýsingu sem ráðherrarnir undirrituðu 15. febrúar síðastliðinn greiðir utanríkisráðuneytið kostnaðinn við móttöku flóttamanna en félagsmálaráðuneytið annast framkvæmdina í samvinnu við flóttamannanefnd og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR.

„Ég bind miklar vonir við þetta samkomulag og tel að öll vinna við þessi verkefni verði skilvirkari, bæði fjárhagslega og skipulagslega“, segir Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra. „Ég er mjög þakklátur utanríkisráðherra fyrir hans þátt í þessu samkomulagi sem felur meðal annars í sér að unnt verður að gera áætlanir fram í tímann og tryggja samfellu í flóttamannaaðstoðinni.“

Í ár verður tekið á móti 25 til 30 flóttamönnum samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar í morgun. Flóttamannanefnd, Flóttamannastofnun SÞ og Rauði kross Íslands annast val á flóttamönnunum. Stefnt er að því að taka á móti hópi úr verkefninu „Women at risk“ sem eru konur og börn á skilgreindum hættusvæðum. Árið 2005 kom hópur flóttamanna frá Suður-Ameríku hingað til lands á grundvelli verkefnisins. Aðlögun hópsins að íslensku samfélagi hefur gengið vel.

Flóttamannanefnd verður falið að leita eftir viðtökusveitarfélagi með öfluga félagsþjónustu og undirbúa samninga við Rauða kross Íslands um framkvæmd verkefnisins hér á landi.

Verklag til fyrirmyndar

Vinnubrögð íslenskra stjórnvalda við móttöku flóttamanna hafa vakið athygli á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og er áhugi á því af hálfu Flóttamannastofnunar SÞ að nýta þetta verklag sem fyrirmynd. Flóttamannanefnd er falið að kanna með hvaða hætti Ísland getur kynnt reynslu sína og þekkingu af móttöku flóttamanna á alþjóðavettvangi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta