Undirbúningur hafinn að Surtseyjarsýningu og gestastofu í Vestmannaeyjum
Í tilefni af tilnefningu Surtseyjar á Heimsminjaskrá UNESCO hefur verið ákveðið að efna til sérstakrar Surtseyjarsýningar í Þjóðmenningarhúsi og að opnuð verði gestastofu í Vestmannaeyjum þar sem gestum verði yrði veittar upplýsingar um sögu og þróun eyjunnar. Talið er líklegt að Surtsey verði samþykkt endanlega á Heimsminjaskrá UNESCO í júní á næsta ári. Gert ráð fyrir að þetta muni auka enn frekar áhuga ferðamanna á Vestmannaeyjum.
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur séð um undirbúning veglegrar Surtseyjarsýningar í Þjóðmenningarhúsi sem gert er ráð fyrir að opni 1. maí næstkomandi. Sýningin verður síðan flutt á næsta ári og komið varanlega fyrir í Surtseyjarstofu í Vestmannaeyjum. Gert er ráð fyrir að í Surtseyjarstofu verði starfandi einn starfsmaður frá Umhverfisstofnun sem sjái um rekstur stofunnar.
Heildarkostnaður við sýninguna í Þjóðmenningarhúsi er áætlaður um 28 milljónir króna. Ákveðið hefur verið að veita 5 milljónum króna af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir því að hægt verði að setja sýninguna upp í vor.
Í dag skipaði Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra starfshóp til að undirbúa sýninguna og vera Náttúrufræðistofnun Íslands til aðstoðar við framkvæmd hennar. Hópinn skipa Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, formaður, umhverfisráðuneyti, Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar, Ragnheiður Þórarinsdóttir, sérfræðingur í menntamálaráðuneyti, Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar og Guðríður Sigurðardóttir, forstöðumaður Þjóðmenningarhúss.
Hér má nálgast umsókn um tilnefningu Surtseyjar á Heimsminjaskrá UNESCO.