Yfirlýsing um hagnýtingu Landsvirkjunar á vatns- og landsréttindum vegna virkjunar í Þjórsá við Búrfell
Forsætisráðherra hefur undirritað svohljóðandi yfirlýsingu: Vegna úrskurða óbyggðanefndar frá 21. mars 2002 og 10. desember 2004, sem fela í sér að Búrfellsvirkjun og svæðið umhverfis hana er innan þjóðlendu, er því hér með lýst yfir með vísan til 4. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sbr. 2. mgr. 3. gr. sömu laga, að með þeim eignarhluta sem íslenska ríkið öðlaðist í Landsvirkjun með sameignarsamningi frá 1. júlí 1965, var að fullu greitt fyrir þau vatns- og landsréttindi sem Landsvirkjun hagnýtir vegna 210 MW virkjunar í Þjórsá við Búrfell og færð eru sem eign í efnahagsreikningi fyrirtækisins.
Í ljósi ofangreindrar yfirlýsingar hefur forsætisráðherra afturkallað frumvarp til laga um heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar sem lagt var fram á yfirstandandi þingi.
Reykjavík 13. mars 2007