Íslenskur sýningarbás á kaupstefnu um skemmtiferðaskip
Íslenskur bás er nú í fyrsta sinn á árlegri kaupstefnu og ráðstefnu um siglingar skemmtiferðaskipa um höfin sjö sem nú stendur í Miami í Flórída í Bandaríkjunum. Alls höfðu erlend skemmtiferðaskip viðkomur 185 sinnum í íslenskum höfnum í fyrra.
Ágúst Ágústsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna, og einn forsvarsmanna samtakanna Cruise Iceland sem stendur að íslenska sýningarbásnum, er á sýningunni ásamt Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra, ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra ferðamála og fulltrúum hafnanna í Grundarfirði, Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði. Auk þessara hafna komu skemmtiferðaskip í fyrrasumar einnig til hafnar í Húsavík, Vestmannaeyjum og Keflavík.
Í móttöku á íslenska básnum í gær flutti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra ávarp og minnti á náttúru Íslands og aðdráttarafl. Sagði hann þjónustu við skemmtiferðaskip og farþega þeirra vera mikilvægan og vaxandi lið í íslenskri ferðaþjónustu. Skemmtiferðaskip hefðu alls haft 185 viðkomur í íslenskum höfnum í fyrra. Jafnframt minnti samgönguráðherra á tónlistar- og ráðstefnuhúsið, sem nú er í byggingu í Reykjavík, og kvaðst vona að í framhaldinu yrði reist gott lægi fyrir skemmtiferðaskip sem aðeins yrði fimm mínútna gang frá miðborginni.
Auk ávarps samgönguráðherra skemmtu gestum með söng sínum þeir Guðmundur Kristjánsson, hafnarstjóri á Ísafirði, og Gísli Gíslason, framkvæmdastjóri Faxaflóahafna.
Ágúst Ágústsson markaðsstjóri sagði Íslendinga nú taka þátt í kaupstefnunni í 15. sinn. Fram að þessu hefði Ísland verið kynnt á bás með Færeyjum og Grænlandi en nú hefði verið ákveðið að hafa Íslands-bás sem væri um 40 fermetrar að stærð. Að honum stæðu hafnirnar ásamt nokkrum ferðaskrifstofum og umboðsmönnum skipa. Ágúst sagði aðsókn að básnum hafa verið góða og hann sér fram á álíka margar og jafnvel fleiri komur skemmtiferðaskipa í sumar og fyrra.
Þá sagði Ágúst að fram hefði komið á öðrum hliðstæðum kaupstefnum að undanförnu að mörg skemmtiferðaskip væru í smíðum og að útgerðir þeirra sæju fram á mjög aukið framboð á farþegarými. Sagði hann það þýða það eitt að Íslendingar yrðu að vera enn betur í stakk búnir til að mæta aukningu á þessum sviðum á næstu árum.