Umhverfisráðherra á ferð um hálendið
Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra fór í hálendisferð með félagsmönnum í Ferðaklúbbnum 4x4 um liðna helgi. Lagt var af stað frá félagsheimili félagsins í Mörkinni klukkan níu á laugardagsmorgun. Ekið var upp í Kerlingafjöll með viðkomu í skála Ferðafélas Íslands í Hvítárnesi og í skála í Árbúðum. Frá Kerlingafjöllum var haldið af stað í erfiðu færi og sóttist ferðin seint í Setur, skála Ferðaklúbbsins 4x4, sem staðsettur er sunnan við Hofsjökul. Vegna illviðris og lítils skyggnis að morgni sunnudags var ákveðið að fara aðra leið til Reykjavíkur en valin hafði verið daginn áður. Farið var yfir Sóleyjarhöfða og niður í Þjórsárdal. Færið reyndist mun betra en fyrri daginn og sóttist ferðin vel. Hægt er að skoða myndur úr ferðinni á heimasíðu Ferðaklúbbsins.
Félagsmenn í 4x4 og fleiri hafa átt í viðræðum við umhverfisráðherra að undanförnu vegna réttaróvissu vegna utanvegaaksturs. Umhverfisráðherra hefur meðal annars greint frá vinnu sem unnin er í umhverfisráðuneytinu við kortlagningu vega og vegaslóða á hálendinu sem ekki eru í umsjá Vegagerðarinnar. Verkið er unnið í samvinnu við Landmælingar Íslands og Umhverfisstofnun. Þá verður haft samráð við sveitarfélög um hvort hægt sé að loka vegum sem eru lítið eða ekkert notaðir og eru taldir líti á umhverfinu.