Umferðarráð telur brýnt að aðskilja akstursstefnur
Umferðarráð samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum 15. mars. Er þar fagnað þeirri fyrirætlun að skilja að akstursstefnur á fjölförnustu þjóðvegunum í nágrenni Reykjavíkur.
Umferðarráð fagnar þeim fyrirætlunum, sem fram koma í tillögu samgönguráðherra til þingsályktunar um samgönguáætlun, að haldið verði áfram kerfisbundnum aðskilnaði akstursstefna á fjölförnustu þjóðvegunum í nágrenni Reykjavíkur. Þrátt fyrir að breikkun Reykjanesbrautar sé ekki lokið, hefur sú framkvæmd þegar fækkað alvarlegum slysum á brautinni og sannað gildi sitt í þágu umferðaröryggis. Í tillögunni er kveðið á um að akstursstefnur verði einnig aðskildar á umferðarþungum köflum Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar út frá Reykjavík.
Umferðarráð telur að aðskilnaður akstursstefna á Suðurlandsvegi milli Reykjavíkur og Selfoss og á Vesturlandsvegi milli Reykjavíkur og Borgarness séu einhverjar brýnustu aðgerðir í umferðaröryggismálum hérlendis um þessar mundir og hvetur Alþingi til að flýta þeim eins og kostur er. Það er skoðun umferðarráðs að heppilegast sé að hefja sem fyrst framkvæmdir við breikkun umræddra vegarkafla með svonefndri 2+1 framkvæmd með þeim valkosti að unnt verði síðar að breikka þá enn frekar í 2+2 vegi. Rannsóknir sýna að lítill munur er á slysatíðni 2+1 vega og 2+2 vega. Margt bendir til að þannig nýtist fjármagnið best í því skyni að hámarka umferðaröryggi umræddra vegarkafla á sem skemmstum tíma auk þess sem unnt verði að fara í nauðsynlegar umferðaröryggisaðgerðir annars staðar í vegakerfinu.