Hoppa yfir valmynd
20. mars 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Áhrif breytinga á virðisaukaskatti á útsöluverð veitingahúsa

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 15. mars 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í neysluverðskönnun Hagstofunnar í mars 2007 kom í ljós að verð á mat- og drykkjarvörum hafði lækkað um 7,4% frá febrúarmánuði og hafa aðgerðir til að lækka matvöruverð með lækkun virðisaukaskatts því almennt skilað sér í útsöluverði matvöru.

Þegar lækkun á vörugjöldum og tollum hefur skilað sér út í verðlag má gera ráð fyrir 8,7% lækkun í heild. Mæling á verði veitingahúsa sýnir hins vegar að lækkun á virðisaukaskatti hefur ekki skilað sér jafn vel til neytenda, og var verð á veitingahúsum, kaffihúsum og börum óbreytt frá febrúarmánuði.

Í áætlun Hagstofunnar um áhrif breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum er gert ráð fyrir að verð á hótelum og veitingastöðum lækki um 8,6%. Hér er um vegna meðalprósentu að ræða þar sem seld vara og þjónusta í þessum geira bar annars vegar 14% virðisaukaskatt (útleiga hótel- og gistiherbergja) og hins vegar 24,5% á seldum veitingum. Að auki var í gangi endurgreiðslukerfi á virðisaukaskatti sem miðaðist við að hráefnishluti veitinganna bæri 14% virðisaukaskatt við endanlega sölu en þjónustuhlutinn væri í efra þrepinu. Með breytingunum 1. mars sl. var kerfið einfaldað og endurgreiðslur afnumdar um leið og öll seld vara og þjónusta í veitingageiranum var færð í 7% þrepið að áfengi undanskildu sem áfram ber 24,5% virðisaukaskatt. Áhrifin af lækkun virðisaukaskatts ættu því að vera meiri í veitingaþjónustu en hið vegna meðaltal gefur til kynna.

Áætla má hvað verð á tilreiddum mat veitingahúsa ætti að lækka mikið vegna breytinga á virðisaukaskatti. Endurgreiðslukerfið sem var við lýði flækti málið og olli því að hlutfall hráefniskostnaðar í endanlegu söluverði skipti máli. Því minna sem þetta hlutfall er, því meiri á hin reiknaða verðlækkun að vera. Hér á eftir er tekið dæmi um rétt sem kostaði 1.000 kr. án virðisaukaskatts. Þar sem hlutdeild hráefnis er breytileg frá einum stað til annars eru sýndir 4 möguleikar þar sem matvælaaðföng vega frá 10% af endanlegu söluverði án virðisaukaskatts upp í 40%. Ekki er reiknað með innskatti af öðrum aðföngum en hráefni til matargerðar, en aðrar rekstrarvörur og launakostnaður hafa vissulega áhrif á heildarkostnað veitingasala og framlegð þeirra af sölu slíkrar þjónustu. Í meðfylgjandi töflu er verð með virðisaukaskatti síðan reiknað fyrir og eftir breytinguna. Þar kemur fram að miðað við lækkun virðisaukaskatts og einföldun kerfsins ætti verð tilreidds matar án áfengis að lækka á bilinu 8,6% til 12,7% án þess að rýra hlut veitingasala.


Dæmi: Söluverð tilbúins matar, 1.000 kr. án virðisaukaskatts
Hráefni, % Hráefnis- kostnaður, kr. Endurgr. v/matvæla- aðfanga, kr. Verð með 24,5% vsk. Nýtt verð með 7% vsk. Breyting, %
10 100 16 1.245 1.087 -12,7
20 200 32 1.245 1.104 -11,3
30 300 47 1.245 1.121 -10,0
40 400 63 1.245 1.137 -8,6


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta