Hoppa yfir valmynd
20. mars 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ný lög og breytingar á eldri lögum við þinglok

Alþingi
Alþingi

Á nýafstöðnu Alþingi voru fimm lagafrumvörp samþykkt sem umhverfisráðherra lagði fram eða tengdust starfsemi umhverfisráðuneytisins á annan hátt. Um er að ræða breytingar á lögum um náttúruvernd, breytingar á lögum um lögheimili og brunavarnir, ný lög um losun gróðurhúsalofttegunda og lög um Vatnajökulsþjóðgarð. Að auki voru samþykktar breytingar á lögum um úrvinnslugjald en þær verða ekki raktar hér.


Breytingar á lögum um náttúruvernd

Samkvæmt lögunum verður kæruaðild samkvæmt náttúruverndarlögum rýmkuð þannig að hún nái til umhverfisverndarsamtaka og útivistarsamtaka. Á sviði náttúruverndar gildir svokallaður almannaréttur, réttur til umferðar um landið og náttúrupplifunar. Umhverfisráðherra taldi því rétt að rýmka kæruaðild samkvæmt náttúrverndarlögum þannig að hún næði einnig til umhverfisverndarsamtaka og útivistarsamtaka.

Með lögunum eru einnig styrkt ákvæði náttúruverndarlaga um friðlýsingu náttúruminja þannig að nú ná þau einnig til bergtegunda og bergforma. Með því er lagður grunnur að ríkari vernd bergforma svo sem hrafntinnu.

Nálgast má frekari upplýsingar um málið á vefsíðu Alþingis.


Lög um Vatnajökulsþjóðgarð

Þjóðgarðurinn verður sá stærsti í Evrópu og mun hafa mikla sérstöðu í náttúrufarslegu tilliti í heiminum. Vatnajökulsþjóðgarður mun þekja um 15.000 km² sem samsvarar um15% af flatarmáli Íslands. Þjóðgarðurinn mun í fyrstu ná til alls jökulsins og helstu áhrifasvæða hans, þ.m.t. Jökulsá á Fjöllum. Nákvæm mörk þjóðgarðsins munu þó ráðast endanlega af samningum við landeigendur og handhafa nytjaréttar. Þess er vænst að hægt verði að stofna þjóðgarðinn seint á þessu ári eða snemma árs 2008.

Net upplýsinga- og þjónustustaða verður byggt upp í þjóðgarðinum. Þjónustunetið mun byggjast á gestastofum sem verða meginstarfsstöðvar þjóðgarðsins og starfsstöðvum landvarða. Nú er gestastofa í Skaftafelli auk þess sem unnið er að byggingu gestastofu í Ásbyrgi stem stefnt er að opna vorið 2007. Lagt er til að fjórar nýjar gestastofur verði reistar til viðbótar, þ.e. ein á hverju rekstrarsvæði þjóðgarðsins. Landvarsla innan marka þjóðgarðsins er nú á fjórum stöðum en lagt er til að staðirnir verði 11 við stofnun hans. Áætlað er að uppbyggingin muni kosta 1.150 milljónir króna og er áætlað að sú uppbygging eigi sér stað á fyrstu fimm árum eftir stofnun þjóðgarðsins. Þannig verði þjónustunet þjóðgarðsins fullgert árið 2012.

Þegar Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi lagði hún áherslu á að sérstaða þjóðgarðsins muni í framtíðinni draga að aukinn fjölda ferðamanna, bæði innlendra og erlendra. Alþjóðleg umhverfisverndarsamtök hafa lýst hugmyndum um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem afar metnaðarfullum og talið líklegt að stofnun hans muni vekja heimsathygli. Í mati Rögnvaldar Guðmundssonar ferðamálafræðings um áhrif stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs á íslenska ferðamennsku segir að þjóðgarðurinn muni auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar um þrjá til fjóra milljarða króna á ári þegar hann er kominn í fullan rekstur, þar af telur hann að 1,5 milljarður króna muni koma fram árlega sem auknar atvinnu- og þjónustutekjur á nærsvæði þjóðgarðsins. Þannig má gróflega ætla að þjóðgarðurinn hafi skapað nálega 400 til 500 ný störf í landinu þegar á árinu 2012. Umhverfisráðherra sagði að þetta sýndi mjög glögglega, þvert ofan í það sem oft sé haldið fram, að náttúruvernd geti lagt grunn að nýjum tekjum af landinu. Þannig mætti segja að stofnun þjóðgarðsins muni ekki aðeins leggja grunn að vernd einstakrar náttúru heldur jafnframt styrkja verulega atvinnulíf og byggð í nágrenni þjóðgarðsins.

Nálgast má frekari upplýsingar um málið á vefsíðu Alþingis.


Lög um losun gróðurhúsalofttegunda

Lögunum er ætlað að tryggja að losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju hér á landi verði ekki meiri en skuldbindingar Íslands samkvæmt Kýótó-bókuninni leyfa. Lögin skapa stjórnvöldum tæki til að takmarka losun koldíoxíðs ef stefnir í að losun fari yfir leyfileg mörk.

Helsta nýmæli laganna er að atvinnurekstur sem losar a.m.k. 30.000 tonn koldíoxíðs á ári er skyldaður til þess að afla sér losunarheimilda sem nægja fyrir losuninni. Nú falla fjögur stóriðjufyrirtæki sem eru starfandi eða í þann veginn að hefja starfsemi undir þær skilgreiningar sem eru í lögunum. Þessi atvinnurekstur og annar sem kann að falla undir ákvæði laganna á tímabilinu 2008-2012 geta aflað sér losunarheimilda með því að sækja um úthlutun til sérstakrar nefndar, sem skipuð er fulltrúum iðnaðarráðuneytis, umhverfisráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Nefndin úthlutar losunarheimildum innan heildar heimilda Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni og úthlutar þeim til atvinnureksturs eftir reglum sem tilgreindar eru í lögunum. Nefndin mun á þessu ári gera áætlun um úthlutun á tímabilinu í heild, þannig að starfandi atvinnurekstur og atvinnurekstur sem hyggur á rekstur á tímabilinu 2008-2012 geti gert áætlanir til samræmis við það.

Fari hins vegar svo að atvinnurekstur losi meira magn koldíoxíðs en það fær úthlutað heimildum fyrir, þarf fyrirtækið sjálft að afla sér viðbótarheimilda með fjármögnun skógræktar- eða landgræðsluverkefna eða öflun viðurkenndra heimilda erlendis frá. Lögin koma því ekki í veg fyrir losun frá stóriðju umfram heimildir Íslands, en tryggja að kostnaður vegna slíkrar umframlosunar falli ekki á íslensk stjórnvöld og að þau gerist ekki brotleg við skuldbindingar sínar samkvæmt Kýótó-bókuninni.

Nálgast má frekari upplýsingar um málið á vefsíðu Alþingis.


Breytingar á lögum um lögheimili og brunavarnir

Alþingi samþykkti frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili og lögum um brunavarnir sem umhverfisnefnd Alþingis lagði fram. Það var byggt á tillögum starfshóps félagsmálaráðherra varðandi búsetu í atvinnuhúsnæði annars vegar og tillögum umhverfisráðherra og Brunamálastofnunar varðandi Hringrásarmálið hins vegar.

Félagsmálaráðherra skipaði í desember 2006 starfshóp til að safna upplýsingum um umfang ólögmætrar búsetu í atvinnuhúsnæði. Starfshópnum var falið að kanna hvort ákvæði laga veita stjórnvöldum nægilegar heimildir til að hafa eftirlit með slíkri búsetu og meta, í samráði við hlutaðeigandi stjórnvöld, hvort úrræði þeirra séu nægileg til að bregðast við þegar þess er þörf. Sérstök áhersla var lögð á að afla upplýsinga um hvort algengt sé að fólk búi við ófullnægjandi eða hættulegar húsnæðisaðstæður og gera tillögur til úrbóta. Starfshópurinn skilaði tillögum sínum í febrúar 2007 þar sem lagðar voru til breytingar á lögheimilislögum og lögum um brunavarnir. Um svipað leyti kom út skýrsla Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um umfang búsetu í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Þar var áætlað að um 1.250 manns búi að staðaldri í atvinnuhúsnæði og að sumt af því húsnæði sem búið var í yrði aldrei leyft til búsetu vegna þess að það uppfyllti ekki þar til gerðar kröfur. Samkvæmt þeim breytingum á lögum um lögheimili sem Alþingi hefur nú samþykkt verður skráning lögheimilis í húsnæði á svæði sem er skipulagt fyrir atvinnustarfsemi óheimil nema búseta sé þar heimil samkvæmt skipulagi og tilskilinna leyfa hafi verið aflað. Jafnframt hefur verið skerpt á ákvæðum laga um brunavarnir varðandi heimildir slökkviliðs til aðgerða vegna ólögmætrar búsetu og um ábyrgð eiganda húsnæðis. Eigendur húsnæðis þar sem nú er ólögmæt búseta geta fengið frest til að koma sínum málum í löglegt horf. Slökkvilið um land allt mun kanna umfang slíkrar búsetu og gera kröfur um nauðsynlegar úrbætur. Fáist ekki leyfi til búsetu í húsnæðinu að því loknu er skylt að rýma það eigi síðar en 1. mars 2009.

Í nóvember 2004 varð stórbruni á athafnasvæði fyrirtækisins Hringrásar í Reykjavík þegar eldur kviknaði í miklum hjólbarðabirgðum á lóð fyrirtækisins. Í kjölfar brunans óskaði umhverfisráðherra eftir úttekt Brunamálastofnunar á atburðinum og skilaði stofnunin skýrslu til ráðherra í janúar 2005. Gerði Brunamálastofnun ýmsar tillögur til úrbóta, meðal annars á lögum um brunavarnir, í því skyni að draga úr líkum á því að slík atvik endurtaki sig. Taldi stofnunin að skýra þyrfti heimildir eldvarnaeftirlits til að hafa eftirlit með og afskipti af brunavörnum á lóð og öðrum svæðum utan dyra þar sem eldhætta gæti skapast. Enn fremur taldi stofnunin að auka þyrfti upplýsingaflæði milli heilbrigðiseftirlits annars vegar og eldvarnaeftirlits hins vegar.

Alþingi hefur nú staðfest þær breytingar á lögum um brunavarnir sem talið var nauðsynlegt að gera vegna þessa.

Nálgast má frekari upplýsingar um málið á vefsíðu Alþingis.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta