Alþjóðlegur dagur vatnsins
Ávarp Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra
á ráðstefnu í tilefni af alþjóðlegum degi vatnsins
fimmtudaginn 22. mars 2007 kl. 13:00
í Orkuveituhúsinu
Ágætu ráðstefnugestir,
Rúm sex ár eru nú liðin síðan þjóðarleiðtogar samþykktu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna Þúsaldaryfirlýsinguna, en með henni viðurkenna ríki heims ábyrgð sína gagnvart því að mannvirðing, jafnrétti og jafnræði séu virt á alheimsvísu. Kjarni Þúsaldaryfirlýsingarinnar er sá að ríkar þjóðir og snauðar taki höndum saman í baráttunni gegn fátækt.
Tveimur árum síðar, árið 2002, var ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um fjármögnun þróunar haldin í mexíkósku borginni Monterrey. Í lokayfirlýsingu ráðstefnunnar, Monterrey samþykktinni svokölluðu, skuldbinda ríkar þjóðir sig til að auka framlög til þróunarsamvinnu, vinna að opnu og sanngjörnu alþjóðaviðskipta- og fjármálakerfi og draga úr skuldabyrði fátækra landa, en þróunarríkin skuldbinda sig á móti til að vinna að efnahagslegum og félagslegum umbótum, að bættu stjórnarfari og til að viðhalda lögum og reglu. Þessar tvær samþykktir eru í dag helsta leiðarljós ríkja heims í baráttunni gegn fátækt.
Þúsaldarmarkmiðin átta, sem eru áhersluatriði Þúsaldaryfirlýsingarinnar, eru mælanleg og tímasett og að baki þeim er raunveruleg skuldbinding allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um að vinna gegn fátækt.
Fátækt og misskipting eru ekki óumflýjanlegt ástand heldur böl sem ógnar öryggi og velferð íbúa heims. Þúsaldarmarkmiðin tengjast innbyrðis og varða flesta þætti mannlegs samfélags og hlutverk ríkisstjórna: útrýmingu fátæktar, jafnrétti kynjanna, bætt heilsufar, aukna menntun og mikilvægi umhverfissjónarmiða.
Vatns- og fráveitumál eru sérstaklega mikilvæg í þessu samhengi. Aðgangur að vatni er jú ein af grunnþörfum mannsins og í raun grundvallar mannréttindi. Við sem búum við nánast ótakmarkaðan aðgang að vatni eigum erfitt með að setja okkur í spor íbúa þeirra þróunarlanda sem ekki búa svo vel. Meira en milljarður jarðarbúa hefur ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni og næstum þrefalt fleiri ekki aðgang að viðunandi fráveituaðstöðu. Vatnsskortur festir í sessi misrétti kynjanna, þar sem oftast eru það konur og stúlkur sem fara um langan veg á degi hverjum til að sækja vatn. Þetta bitnar á menntun þeirra og atvinnuþátttöku.
Íslensk stjórnvöld hafa í hartnær fjóra áratugi tekið þátt ýmis konar þróunarsamvinnu. Í byrjun var starfsemin smá í sniðum, en á fáum árum hefur umfangið aukist hratt. Árið 2000 var hlutfall framlaga til þróunarsamvinnu 0,12 prósent af vergri landsframleiðslu og hefur farið vaxandi síðan. Árið 2004 markaði ríkisstjórnin þá stefnu að á árinu 2009 skuli þetta hlutfall hafa náð 0,35 prósent af vergri landsframleiðslu. Við þessa stefnu hefur verið staðið. Á síðasta ári lögðum við sem svarar til 0,27 prósent landsframleiðslunnar til málaflokksins. Í krónum talið er þetta hækkun úr 799 milljónum króna árið 2000 í 3,2 milljarða króna á þessu ári.
Stefna íslenskra stjórnvalda í þróunarsamvinnu, sem sett var fram árið 2005, er mótuð í anda Þúsaldamarkmiðanna og Monterrey samþykktarinnar. Stefnan byggir á fjórum stoðum og fjalla þær um mannauð, jafnrétti og efnahagslega þróun, lýðræði, mannréttindi og stjórnarfar, frið, öryggi og þróun og sjálfbæra þróun.
Allar stoðirnar styðjast við Þúsaldarmarkmiðin, en þó sér í lagi sú fyrsta. Þrjú af Þúsaldarmarkmiðunum fjalla um heilbrigðismál og tvö um menntun, en aukin menntun, heilbrigði og jafnrétti stuðla að félagslegum og efnahagslegum framförum.
Þau málefni sem falla undir fyrstu stoðina tengjast uppbyggingu þessara þátta, svo sem fæðuöryggi, menntun, heilbrigðismál, réttindi barna og kvenna og viðskipti.
Einn þriðji dauðsfalla í heiminum í dag, um 50 þúsund manns, deyja á degi hverjum af sökum fátæktar: úr hungri eða vegna sjúkdóma sem hægt er að koma í veg fyrir. Það er vel þekkt að menntun, sérstaklega stúlkna, hefur jákvæð áhrif á heilsufar og hefur til dæmis verið bent á að þeir sem hafa lokið fyrstu bekkjum grunnskóla smitast síður af alnæmi.
Verkefni á sviði menntamála hafa fengið aukið vægi í verkefnavali Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og spanna þau allt frá fullorðinsfræðslu, þjálfun og byggingu skóla til menntunar á grunn-, framhalds-, og háskólastigi. Utanríkisráðuneytið veitir á hverju ári framlög til alþjóðastofnana sem vinna að menntamálum að ógleymdum Jarðhita- og Sjávarútvegskólum Háskóla S.þ., sem hafa starfað á Íslandi frá því 1979 og 1998. Auk þess má nefna að með verkefninu Börn styðja börn sem er unnið í samstarfi við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna tryggja íslensk stjórnvöld um 63.000 börnum í Úganda og Malaví skólamáltíðir í tvö ár, sem er leið til þess að fá börn í skóla og bæta um leið heilsu þeirra og lífskjör.
Þrjú af Þúsaldarmarkmiðunum taka til heilsugæslu. ÞSSÍ hefur í samstarfi við Rauða kross Mósambik, Rauða kross Íslands og mósambísk stjórnvöld unnið að tveimur heilsugæsluverkefnum í Mósambik og um árabil staðið að uppbyggingu á heilsugæslu í Monkey Bay í Malaví í samstarfi við þarlend stjórnvöld. Á sama svæði hefur ÞSSÍ nýlega hafið vatns- og fráveituverkefni.
Viðskiptalífið tekur í vaxandi mæli þátt í þróunarsamvinnu, sem fjárhagslegur bakhjarl félagasamtaka eða stofnana, við framkvæmd verkefna, og sem fjárfestir og beinn þátttakandi í efnahagslegri þróun fátækra landa. Þörf þróunarlandanna fyrir fjárfestingu og tækniþekkingu er mikil og við eigum að virkja útrásarvilja og nýsköpun íslensks viðskiptalífs þróunarlöndunum til hagsbóta.
Þegar ég var í Úganda í síðasta mánuði sá ég með eigin augum þann drifkraft og áræðni sem konurnar hjá Samtökum frumkvöðlakvenna í Úganda búa yfir, en sumar þeirra fengu þjálfun í frumkvöðlafræðum við Háskólann í Reykjavík á síðasta ári, sem er hluti af samstarfsverkefni ÞSSÍ og fjárfestingastofu Úganda. Tvö af Þúsaldarmarkmiðunum taka til atvinnumála og aukinna viðskiptatækifæra og er þessi þáttur hluti af viðleitni okkar til að styðja við þau markmið.
Vatn er ekki aðeins ein af grunnþörfum mannsins, heldur einnig nauðsynlegt til áveitu ræktaðs lands, í iðnað og til orkuframleiðslu. Aðgangur að raforku á viðráðanlegu verði hefur margþætt áhrif á líf fólks í fátækum löndum. Um 2 milljarðar jarðabúa hafa ekki aðgang að rafmagni og margir þeirra búa í þéttbýli eða borgum þar sem skortur er einnig á viðunandi vatns- og salernisaðstöðu. Í Úganda var mér til dæmis bent á að einungis um 6 prósent íbúa hafa aðgang að rafmagni en þó eru miklir möguleikar á að nýta bæði vatn og jarðvarma til orkuframleiðslu í landinu.
Í Afganistan hófst nýlega verkefni á vegum Íslensku friðargæslunnar þar sem byggðar verða 10 litlar vatnsaflsvirkjanir til raforkuframleiðslu í Ghor héraði sem bæta mun stórlega líf fólks á svæðinu, auka öryggi og aðgang að skólum og heilsugæslu. Nýjasti málaflokkur í viðfangsefnum ÞSSÍ er á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, einkum jarðhita og eru nú í Níkaragva verkefni í undirbúningi á sviði jarðvarma til orkuframleiðslu.
Einn af hverjum fimm íbúum heims nýta fisk sem helstu prótín uppsprettu í fæðu. Um 400 milljónir manna og kvenna hafa lífsviðurværi sitt af fiskveiðum, beint eða óbeint. Það er því nauðsynlegt að bæði efla og vernda fiskistofna og bæta þekkingu í fiskvinnslu hvort sem um er að ræða stuðning við dagróðrafiskimenn eða iðnað sem er stærri í sniðum. ÞSSÍ hefur frá upphafi lagt megináherslu á verkefni á sviði fiskimála og sjávarútvegs. Aukin áhersla á öðrum sviðum hefur ekki breytt því að fiskimál eru enn u.þ.b. þriðjungur tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands.
Góðir áheyrendur,
Eins og ég vék að í upphafi eru Þúsaldarmarkmiðin öll nátengd og er vatn einn af þeim þráðum sem tengja markmiðin saman. Margir segja að stríð og átök framtíðarinnar verði háð vegna yfirráða yfir vatnsbólum, bæði til neyslu og til ræktunar. Vegna loftslagsbreytinga fari landsvæði undir vatn og flóð og fellibylir eigi eftir að valda eigna- og manntjóni. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur áratugurinn 2005-2015 verið tileinkaður vatni og nefndur „Vatn fyrir lífið”. Vatn snertir alla þætti mannlífs en þó einna mest konur í fátækum löndum. Konur sjá um matseld, húsdýrin, akurinn, hreinlæti og þvotta, sem allt krefst þess að þær hafi aðgang að vatni. Hreint vatn og viðunandi sorphreinsun koma í veg fyrir alls kyns sjúkdóma svo sem kóleru, taugaveiki og malaríu, en um ein milljón manns deyr úr malaríu á ári hverju. Talað er um að lágmarks vatnsþörf á mann á dag sé um 20 lítrar. Í fátækum löndum eru milljónir sem komast af með fjórðung þess. Með hreinu vatni og viðunandi fráveitu- og salernisaðstöðu væri hægt að stórbæta líf milljóna manna og kvenna í fátækum löndum.
Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna, UNDP, lagði á síðasta ári áherslu á vatns- og fráveitumál í árlegri skýrslu sinni um mannþróun. Í skýrslunni segir að eitt mikilvægasta og jafnframt erfiðasta verkefni 21. aldarinnar verði að vinna bug á því ástandi sem nú ríkir í vatns- og fráveitumálum. Á degi hverjum deyja um fjögur þúsund börn yngri en fimm ára vegna þess að þau hafa ekki aðgang að hreinu vatni. Þá eru ótaldir þeir eldri sem geta ekki gengið í skóla eða unnið vegna veikinda sem rekja má til skorts á vatni eða óviðunnandi fráveitu. Vatn er ein af grunnþörfum mannsins og er því nauðsynlegt fyrir þjóðir heims að taka höndum saman og vinna að bættu aðgengi íbúa fátækra ríkja að vatni til að tryggja að Þúsaldarmarkmiðin nái fram að ganga.
Ágætu ráðstefnugestir,
Fyrr í ávarpi mínu talaði ég um mikilvægi þess að viðskiptalífið sé þátttakandi í baráttu alþjóðasamfélagsins gegn fátækt. Fyrirtæki og samtök bera félagslega ábyrgð og það er því ánægjulegt að hér í dag ætlar Samorka að veita Hjálparstarfi kirkjunnar styrk til verkefna við vatnsöflun. Ég bið Eirík Bogason, framkvæmdastjóra Samorku að koma hér upp og afhenda styrkinn.
Þakka ykkur fyrir.