Íslenskir ellilífeyrisþegar standa vel miðað við hin Norðurlöndin samkvæmt OECD
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 22. mars 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Í skýrslu frá OECD, „Pensions at a glance”, eru teknir saman mælikvarðar um stöðu ellilífeyrisþega.
Í skýrslunni er ellilífeyrir í hverju landi sýndur sem hlutfall af launum verkamanns sem vinnur í 45 ár. Mælikvörðunum er skipt í þrennt, þ.e. hlutfall af lægri launum, meðallaunum og hærri launum verkamanns. Þess ber að geta að séreignarsparnaður er ekki tekinn með í tölum OECD.
Fróðlegt er að taka sérstaklega út Norðurlöndin til samanburðar þar sem lífskjör og lífslíkur eru svipaðar. Eftirfarandi tafla sýnir hlutfall ellilífeyris af tekjum verkamanns eftir skatta á Norðurlöndunum.
Tekjur ellilífeyrisþega sem hlutfall af launum verkamanns (%) | ||||
---|---|---|---|---|
Land | Lægri tekjur | Meðal tekjur | Hærri tekjur | Lífslíkur (ár) |
Danmörk |
95,6
|
54,1
|
35,5
|
77,2
|
Finnland |
87,3 |
71,5 |
123,1 |
78,5 |
Ísland |
95,8 |
65,9 |
57,2 |
80,7 |
Noregur |
85,5 |
65,1 |
50,1 |
79,5 |
Svíþjóð |
90,2 |
68,2 |
74,3 |
80,2 |
Meðaltal |
90,9 |
65,0 |
68,0 |
79,2 |
Heimild: OECD |
Eins og sést í töflunni eru íslenskir ellilífeyrisþegar um og yfir meðaltalið á Norðurlöndunum. Miðað við lægri tekjur mega íslendingar búast við hlutfallslega hæstum ellilífeyri miðað við hin Norðurlöndin eða 95,8%. Sé miðað við meðaltekjur og hærri tekjur sitja íslenskir ellilífeyrisþegar í miðjunni á meðal Norðurlandanna. Dálkurinn lengst til hægri sýnir svo lífslíkur, sem eru hæstar á Íslandi eða 80,7 ár. Tölur OECD staðfesta aðra mælikvarða frá t.d. Nordisk Socialstatistisk Komité (NOSOSCO) þar sem að íslenskir ellilífeyrisþegar koma ágætlega út í samanburði við hin Norðurlöndin.
Að lokum má benda á að mælikvarði NOSOSCO um stöðu ellilífeyrisþega, sem nýlega var birtur í vefriti fjármálaráðuneytisins, sýnir ellilífeyrisgreiðslur á hvern ellilífeyrisþega. Þær tölur eru frábrugðnar t.d. tölum Hagstofunnar sem varða ellilífeyrisgreiðslur aldraðra. Tölur Hagstofunnar sýna ellilífeyrisgreiðslur á hvern íbúa 65 ára og eldri en ekki á hvern ellilífeyrisþega eins og sumir virðast álíta. Það er mikilvægt að halda því til haga hvort verið er að fjalla um ellilífeyrisþega eða aldraða, en á Íslandi eru ekki allir 65 ára og eldri ellilífeyrisþegar. Ellilífeyrisgreiðslur á hvern íbúa 65 ára og eldri gefa því ekki rétta mynd af ellilífeyrisgreiðslum sem íslenskir ellilífeyrisþegar eru með að meðaltali.