Veruleg fjölgun á dagvistar- og hvíldarrýmum fyrir aldraða á næstu mánuðum
Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að fjölga verulega úrræðum sem miða að því að styðja aldraða til að búa sem lengst heima. Alls verður varið 370 milljónum króna í þetta verkefni. Þetta er í samræmi við áherslur sem ráðherra hefur kynnt um uppbyggingu öldrunarþjónustunnar sem miða að því að efla þjónustu sem gerir öldruðum kleift að búa sem lengst heima.
Ákvörðun ráðherra felur í sér að dagvistarrýmum verður fjölgað um 75 sem er um 11% fjölgun dagvistarrýma en þau voru samtals um 700 á landinu öllu í lok árs 2006.
Af þeim 75 dagvistarrýmum sem við bætast verða 44 rými sérstaklega ætluð heilabiluðum og verður stærstur hluti þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir voru samtals 129 dagvistarrými sérstaklega ætluð heilabiluðum og því er hér um 34% aukningu að ræða. Almennu dagvistarrýmunum verður hins vegar komið fyrir víða um land og má geta þess að við bætast 11 staðir þar sem ekki hafa áður verið dagvistarrými fyrir aldraða. Með þessu móti verður dagvistun fyrir aldraða að aðgengilegu úrræði um allt land. Hvíldarrýmum verður einnig fjölgað og bætast við 23 slík rými vítt og breitt um landið.
Í ráðuneytinu er nú unnið að gerð áætlunar um staðsetningu þessara rýma og er stefnt að því að ákvörðun þar um liggi fyrir á næstu dögum.
Fjölgun hjúkrunarrýma
Ennfremur má geta þess að nú liggja fyrir ákvarðanir um byggingu nýrra hjúkrunarheimila sem munu fjölga rýmum samtals um 374 á næstu 4 árum sem er um 15% aukning hjúkrunarrýma í landinu. Þetta eru 200 rými á tveimur nýjum hjúkrunarheimilum í Reykjavík og 174 rými víðs vegar um land. Heimilin sem bætast við í Reykjavík eru annars vegar hjúkrunarheimili við Suðurlandsbraut sem reist verður í samstarfi við Reykjavíkurborg og hins vegar á Lýsislóðinni í samstarfi við Reykjavíkurborg og Seltjarnarnesbæ. Þá er um að ræða 20 ný hjúkrunarrými í Árborg, 44 í Kópavogi, 20 í Mosfellsbæ, 30 í Reykjanesbæ, 30 í Hafnarfirði, 10 í Ísafjarðarbæ og 20 í Garðabæ.