Alþjóðleg ráðstefna um þróun siglingaleiða á norðurslóðum
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 043
Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra setur á morgun á Hótel KEA á Akureyri alþjóðlega ráðstefnu um þróun siglingaleiða á norðurslóðum. Utanríkisráðuneytið stendur fyrir ráðstefnunni í samstarfi við ýmsa aðila; þeirra á meðal Háskólann á Akureyri og starfshóp um norðurslóðamál. Ráðstefnan ber heitið Breaking the Ice – eða Ísinn brotinn og stendur í tvo daga.
Frummælendur eru í hópi fremstu sérfræðinga á sínum sviðum og koma frá Bandaríkjunum, Noregi, Finnlandi, Rússlandi, Íslandi og Evrópusambandinu.
Meðal annars verður fjallað um breytingar á ísalagi Norður-Íshafsins af völdum loftslagsbreytinga, siglingatækni á hafíssvæðum, öryggisbúnað og viðbragðsáætlanir, lagalegar hliðar norðurslóðasiglinga og þá möguleika, sem þær hafa í för með sér fyrir hagþróun.
Í tengslum við ráðstefnuna verða haldnir borgarafundir um áhrif norðurslóðasiglinga. Fyrri fundurinn er á Akureyri í dag, mánudag, en síðari fundurinn í Reykjavík á fimmtudaginn kemur.
Dagskrá ráðstefnunnar fylgir hér með. (PDF, 154 Kb)