Hoppa yfir valmynd
27. mars 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Þróunarsjóður og aðlögunarverkefni á sviði innflytjendamála

Magnús Stefánsson tilkynnir um stofnun þróunarsjóðs á sviði innflytjendamála
Magnús Stefánsson tilkynnir meðal annars um stofnun þróunarsjóðs á sviði innflytjendamála.

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra tilkynnti að stofnaður yrði nýr þróunarsjóður á sviði innflytjendamála í ávarpi sínu á íbúaþingi á Ísafirði síðdegis. Íbúaþingið var haldið í tengslum við ráðstefnu sem Fjölmenningarsetrið efndi til í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða um innflytjendamál og byggðamál.

Magnús Stefánsson sagði að árlega verði veittar 10 milljónir króna úr sjóðnum samkvæmt reglum sem innflytjendaráði verður falið að semja. Háskólasetur Vestfjarða hefur fallist á að annast umsýslu þróunarsjóðsins.

„Tilgangurinn er að auðvelda innflytjendum aðlögun að íslensku samfélagi“, sagði Magnús. „Margir vinna þegar gott verk á þessum vettvangi en segja má að þetta sé frumkvöðlastarf hér á landi og það vil ég styrkja. Við eigum að byggja á því sem vel hefur verið gert og því hugviti sem skapast hefur.“

Efld starfsemi

Jafnframt hefur verið ákveðið að efla starfsemi Fjölmenningarseturs og Alþjóðahúss. 

Til Fjölmenningarseturs, sem starfrækt er á Ísafirði, verður ráðinn upplýsingafulltrúi en greiður aðgangur að upplýsingum skiptir innflytjendur sem eru að fóta sig í nýju landi miklu máli. Staða upplýsingafulltrúa Fjölmenningarseturs verður auglýst innan skamms en stefnt er að því að hann hefji störf eigi síðar en um mitt ár 2007. 

Ráðgjafar- og lögfræðiþjónusta Alþjóðahúss vegna innflytjenda alls staðar á landinu verður styrkt sérstaklega. 

Aðlögunarverkefni í tilraunaskyni 

Þar að auki verður ráðist í tilraunaverkefni árin 2007 og 2008 í tveimur sveitarfélögum. 

Pallborðsumræður á íbúaþingi á Ísafirði„Ég sé fyrir mér að vinnubrögð við móttöku flóttamanna verði yfirfærð á aðlögun innflytjenda almennt“, sagði Magnús Stefánsson. „Um er að ræða verkefni í Fjarðabyggð og í Bolungarvík. Félagsmálaráðuneytið mun styrkja slík verkefni en þau eru byggð á tillögum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og sveitarfélaganna Fjarðabyggðar og Bolungarvíkur. Gert er ráð fyrir að verkefnin verði unnin í náinni samvinnu við Fjölmenningarsetrið. Þau byggjast á þeirri meginforsendu að sveitarfélögin nálgist innflytjendur, myndi við þá tengsl og upplýsi um margvíslega starfsemi og þjónustu af hálfu hins opinbera. Með því sköpum við samfélag sem býður nýja þegna sína velkomna.“



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta