Nýir loftferðasamningar við Danmörku, Noreg og Svíþjóð
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkis- og samgönguráðuneyti
Nr. 044
Í dag voru í utanríkisráðuneytinu áritaðir nýir loftferðasamningar við Danmörku, Noreg og Svíþjóð. Samningarnir koma í stað eldri samninga frá 1950-60.
Í loftferðasamningunum felast víðtækari flugréttindi en íslenskir flugrekendur hafa hingað til notið til flugs frá þessum ríkjum til þriðju ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA-ríkjanna og aðildarríkja sameiginlega evrópska flugsvæðisins. Í samningunum við Noreg og Svíþjóð felast ótakmörkuð réttindi til flugs til þriðju ríkja og fyrir farmflug réttindi til flugs frá þriðja ríki til Noregs og Svíþjóðar og öfugt án viðkomu á Íslandi.
Í loftferðasamningnum við Danmörku kveður á um rýmkuð réttindi til flugs til þriðju ríkja, með auknum fjölda áfangastaða, og jafnframt er staðfest með samningnum að allar takmarkanir á slíkum réttindum falla endanlega niður í síðasta lagi á árinu 2013. Réttindi til farmflugs frá þriðju ríkjum til Danmerkur og öfugt er ótakmarkaður líkt og í samningunum við Noreg og Svíþjóð. Miðað er við að aðrar viðræður um aukin réttindi verði við Danmörku vegna Grænlands og Færeyja á þessu ári.