Hoppa yfir valmynd
29. mars 2007 Innviðaráðuneytið

Góð rekstrarskilyrði ferðaþjónustu á Íslandi

Rekstrarskilyrði ferðaþjónustu á Íslandi koma vel út í samanburði við Noreg, Svíþjóð og Danmörku og Ísland er samkeppnishæfast af þessum fjórum löndum þegar litið er til niðurstöðu Alþjóðlegu efnahagsstofnunarinnar í fyrra þar sem metin er samkeppnishæfni 124 landa í ferðaþjónustu. Ísland er í fjórða sæti af þessum 124 löndum.

Frá aðalfundi SAF á Akureyri
Frá aðalfundi SAF á Akureyri

Þetta var meðal þess sem fram kom í ræðu sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra flutti við upphaf aðalfundar Samtaka ferðaþjónustunnar á Akureyri í dag. Ráðherra gerði einnig að umtalsefni nýja könnun sem unnin var á vegum Ferðamálastofu að beiðini samgönguráðuneytisins en þar kom meðal annars fram að skattaumhverfi á Íslandi er betra en í Noregi, Danmöku og Svíþjóð, umfang ferðaþjónustu hefur aukist hlutfallslega mest á Íslandi og virðisaukaskattur er á öllum stigum lægri hér en í áðurnefndum löndum.

Samkeppnisstaða ferðaþjónustunnar er mæld út frá allmörgum þáttum svo sem stefnumótandi reglum, umhverfisreglum, skipulagi samgangna og ferðamennsku, verðsamkeppni og náttúrulegum og menningarlegum verðmætum. Margar þessara stoða eru á sviði samgönguráðuneytisins og sýna svo ekki verður um villst nauðsyn þess að samþætta skipulag samgangna og fjarskipta við þróun ferðaþjónustunnar. Ein þessara stoða eru stefnumótandi reglur en samgönguráðuneytið hefur undanfarin ár farið nýjar leiðir í að móta stefnu í ferðaþjónustu til framtíðar.

Starfshópur hefur verið skipaður til að skilgreina vaxandi þarfir vegna móttöku skemmtiferðaskipa og þjónustu við þau á nefndin meðal annars að fjalla um hafnaraðstöðu og aðra innviði sem þurfa að vera í lagi svo greinin geti blómstrað.

Einnig nefndi ráðherrann að endurskoðun á ferðamálaáætlun væri að hefjast sem væri fyrr en ráðgert var þar sem gengið hefði vel að hrinda verkefnum hennar í framkvæmd. Þá kom ráðherra inn á nýjan samning Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um aukið frelsi í flugi sem felur í sér að flugfélög í löndum ESB og í Bandaríkjunum geta hafi flug yfir hafið en til þessa hefur það verið háð ýmsum skilyrðum. Hafa utanríkisráðuneytið og samgönguráðuneytið þegar hafið athugun á því hvort Ísland getur gerst formlegur aðili að samningnum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum