Hoppa yfir valmynd
30. mars 2007 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Embætti safnstjóra Náttúruminjasafns Íslands

Umsóknarfrestur er til 23. apríl 2007.

Embætti safnstjóra Náttúruminjasafns Íslands er laust til umsóknar.

Náttúruminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Hlutverk safnsins er að varpa ljósi á náttúru Íslands, náttúrusögu landsins, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd. Náttúruminjasafnið safnar í þessu skyni munum, skráir þá og varðveitir, aflar upplýsinga um náttúru Íslands og nýtingu náttúruauðlinda innan lands og utan. Safnið annast kynningu á náttúru Íslands með sýningum og annarri fræðslustarfsemi fyrir skóla, fjölmiðla og almenning. Náttúruminjasafn Íslands veitir öðrum náttúruminjasöfnum ráðgjöf, stuðlar að samvinnu þeirra hér á landi, á samstarf við vísinda- og rannsóknastofnanir á sviði náttúrufræða á vegum ríkisins og annarra aðila og vinnur að samræmdri safnastefnu á sviði náttúrufræða, jafnframt því sem safnið annast rannsóknir á starfssviði sínu.

Safnstjóri Náttúruminjasafns Íslands er forstöðumaður og stjórnandi safnsins, og mótar stefnu þess. Safnstjóri situr í safnaráði samkvæmt stöðu sinni. Hann er ábyrgur gagnvart ráðherra fyrir fjárhagslegum rekstri og starfsemi safnsins.

Safnstjóri skal hafa háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfssviði safnsins.

Menntamálaráðherra skipar safnstjóra Náttúruminjasafns Íslands til fimm ára í senn, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um Nátttúruminjasafn Íslands, nr. 35/2007 og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Gert er ráð fyrir að skipað verði í embættið frá og með 7. maí nk. Um laun og starfskjör safnstjóra fer eftir ákvörðun kjararáðs, sbr. lög um kjararáð, nr. 47/2006.

Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil sendist menntamálaráðuneyti, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík. Upplýsingar veitir skrifstofa menningarmála. Umsóknarfrestur er til 23. apríl nk.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta