Stuðningur við Rauða krossinn í Mósambík
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 047
Utanríkisráðherra hefur ákveðið að styðja við starf Rauða krossins í Mósambík með 3 m.kr. framlagi, en miklar hörmungar hafa dunið þar yfir að undanförnu. Margir hafa misst heimili sín vegna flóða í mið- og suðurhluta landsins og sprengingar í gömlu vopnabúri ollu miklu tjóni.
Talið er að fjöldi þeirra sem misst hefur heimili sín vegna flóðanna sé á þriðja hundrað þúsund og hefur hjálparstarfið m.a. miðað að því að veita húsaskjól, matvæli, öruggt drykkjarvatn, læknisþjónustu og salernisaðstöðu. Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna hefur veitt 7,6 millj. USD vegna flóðanna í Mósambík, en framlag Íslands til Neyðarsjóðsins á þessu ári nemur 20 m.kr.
Rauði krossinn í Mósambík vinnur nú að því ásamt öðrum hjálparstofnunum að hreinsa nágrenni vopnageymslu sem sprakk í nágrenni höfuðborgarinnar, þar sem um 20 tonn af gömlum vopnum voru geymd og til stóð að eyða. Ríflega eitt hundrað manns létust í sprengingunum og 500 slösuðust en mörgum stafar hætta af ósprungnum vopnum sem er að finna á víð og dreif.