Hoppa yfir valmynd
31. mars 2007 Innviðaráðuneytið

Gengið frá samningum um úrbætur á ferðamannastöðum

Skrifað var undir samninga um fimm stærstu styrkina til úrbóta á ferðamannastöðum á Akureyri í vikunni. Fulltrúar styrkþega og Magnús Oddsson ferðamálastjóri skrifuðu undir samningana að viðstöddum samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssyni.

Samningar um styrki til ferðamannasvæða undirritaðir.
Samningar um styrki til ferðamannasvæða undirritaðir.

Alls barst 131 umsókn um styrki til úrbóta á ferðamannasvæðum sem Ferðamálastofa auglýsti í lok síðasta árs og sóttu þessir aðilar alls um 218 milljónir króna. Til ráðstöfunar voru 48 milljónir en styrkir eru veittir til verkefna á eftirfarandi sviðum og í þessari forgangsröð: Náttúruvernd, upplýsinga- og öryggismál, áningarstaðir og önnur verkefni.

Fimm stærsu styrkina hlutu eftirfarandi aðilar:

Ferðaþjónustan Brunnhóli og Ferðaþjónustan í Hólmi sem hafa unnið að því að byggja upp gönguleiðir og áningastaði við Fláajökul ásamt landeigendum á svæðinu. Styrkur er veittur til að koma upp opnum skýlum við gönguleiðir með hreinlætisaðstöðu og upplýsingum og er hann að upphæð tvær milljónir króna.

Hörgárbyggð og Minjasafnið á Akureyri fá tvær milljónir til kaupa á snyrtiaðstöðu og frágangs við rannsóknasvæðið á Gásum við Eyjafjörð.

Sóknarnefnd Þingeyraklausturssóknar fær þriggja milljón króna styrk við byggingu þjónustuhúss sem bætir aðstöðu ferðafólks og safnaðarstarfs.

Hveravallafélagið ehf. fær þriggja milljóna króna styrk til uppbyggingar og úrbóta á aðstöðu á svæðinu.

Skútustaðahreppur fær 5,5 milljónir króna til að vinna við deiliskipulag og bæta hreinlætisaðstöðu við Dimmborgir en þar kom nokkuð á annað hundrað þúsund manna á þriggja mánaða tímabili á síðasta sumri.

Fulltrúar styrkþeganna sögðu nokkur orð við undirskrift samninganna og þökkuðu samgönguráðherra og Ferðamálastofu fyrir að hafa haft forgöngu um að útvega fjármagn til verkefna á þessum sviðum.

Verkefnum er skipt í fjóra megin flokka. Í flokknum minni verkefni gátu styrkir numið 500 þúsund krónum að hámarki. Í þá bárust 75 umsóknir en 38 fengu styrki sem námu alls 10,7 milljónum króna. Umsóknir um stærri verkefni á fjölförnum ferðamannasvæðum var alls 21 og var 17,1 milljón króna úthlutað til 9 verkefna. Í flokknum uppbygging á nýjum svæðum voru umsóknir 35 og var úthlutað 10,9 milljónum króna til 9 verkefna. Fjórði flokkurinn nefnist aðgengi fyrir alla og fengu þar sex verkefni styrk að upphæð 9,2 milljónir króna.

Á myndinni má sjá hvar skrifað er undir samninga um styrkina. Talið frá vinstri: Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi Ferðamálastofu; Böðvar Pétursson frá Skútustaðahreppi vegna Dimmuborga; Sigurlaug Gissurardóttir frá Ferðaþjónustunni Brunnhóli og Ferðaþjónustunni í Hólmi; Sturla Böðvarsson samgönguráðherra; Magnús Oddsson ferðamálastjóri; Erlendur G. Eysteinsson frá sóknarnefnd Þingeyraklaustursóknar; Björn Þór Kristjánsson frá Hveravallafélaginu og Guðmundur Sigvaldason frá Hörgárbyggð.

     
 Samningar um styrki til ferðamannasvæða undirritaðir.      
       
       

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta