Gengið frá samningum um úrbætur á ferðamannastöðum
Skrifað var undir samninga um fimm stærstu styrkina til úrbóta á ferðamannastöðum á Akureyri í vikunni. Fulltrúar styrkþega og Magnús Oddsson ferðamálastjóri skrifuðu undir samningana að viðstöddum samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssyni.
Alls barst 131 umsókn um styrki til úrbóta á ferðamannasvæðum sem Ferðamálastofa auglýsti í lok síðasta árs og sóttu þessir aðilar alls um 218 milljónir króna. Til ráðstöfunar voru 48 milljónir en styrkir eru veittir til verkefna á eftirfarandi sviðum og í þessari forgangsröð: Náttúruvernd, upplýsinga- og öryggismál, áningarstaðir og önnur verkefni.
Fimm stærsu styrkina hlutu eftirfarandi aðilar:
Ferðaþjónustan Brunnhóli og Ferðaþjónustan í Hólmi sem hafa unnið að því að byggja upp gönguleiðir og áningastaði við Fláajökul ásamt landeigendum á svæðinu. Styrkur er veittur til að koma upp opnum skýlum við gönguleiðir með hreinlætisaðstöðu og upplýsingum og er hann að upphæð tvær milljónir króna.
Hörgárbyggð og Minjasafnið á Akureyri fá tvær milljónir til kaupa á snyrtiaðstöðu og frágangs við rannsóknasvæðið á Gásum við Eyjafjörð.
Sóknarnefnd Þingeyraklausturssóknar fær þriggja milljón króna styrk við byggingu þjónustuhúss sem bætir aðstöðu ferðafólks og safnaðarstarfs.
Hveravallafélagið ehf. fær þriggja milljóna króna styrk til uppbyggingar og úrbóta á aðstöðu á svæðinu.
Skútustaðahreppur fær 5,5 milljónir króna til að vinna við deiliskipulag og bæta hreinlætisaðstöðu við Dimmborgir en þar kom nokkuð á annað hundrað þúsund manna á þriggja mánaða tímabili á síðasta sumri.
Fulltrúar styrkþeganna sögðu nokkur orð við undirskrift samninganna og þökkuðu samgönguráðherra og Ferðamálastofu fyrir að hafa haft forgöngu um að útvega fjármagn til verkefna á þessum sviðum.
Verkefnum er skipt í fjóra megin flokka. Í flokknum minni verkefni gátu styrkir numið 500 þúsund krónum að hámarki. Í þá bárust 75 umsóknir en 38 fengu styrki sem námu alls 10,7 milljónum króna. Umsóknir um stærri verkefni á fjölförnum ferðamannasvæðum var alls 21 og var 17,1 milljón króna úthlutað til 9 verkefna. Í flokknum uppbygging á nýjum svæðum voru umsóknir 35 og var úthlutað 10,9 milljónum króna til 9 verkefna. Fjórði flokkurinn nefnist aðgengi fyrir alla og fengu þar sex verkefni styrk að upphæð 9,2 milljónir króna.
Á myndinni má sjá hvar skrifað er undir samninga um styrkina. Talið frá vinstri: Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi Ferðamálastofu; Böðvar Pétursson frá Skútustaðahreppi vegna Dimmuborga; Sigurlaug Gissurardóttir frá Ferðaþjónustunni Brunnhóli og Ferðaþjónustunni í Hólmi; Sturla Böðvarsson samgönguráðherra; Magnús Oddsson ferðamálastjóri; Erlendur G. Eysteinsson frá sóknarnefnd Þingeyraklaustursóknar; Björn Þór Kristjánsson frá Hveravallafélaginu og Guðmundur Sigvaldason frá Hörgárbyggð.