Eiginfjárstaða Seðlabanka Íslands efld um 44 milljarða króna
Í ræðu forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, á ársfundi Seðlabanka Íslands sl. föstudag kynnti hann þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að ráðstafa umtalsverðum hluta af innstæðu ríkissjóðs í Seðlabankanum til þess að efla eiginfjárstöðu bankans um 44 milljarða króna. Með þessu styrkist eiginfjárstaða Seðlabankans verulega en eigið fé bankans var rúmlega 48 milljarðar króna í lok febrúar sl. Ennfremur er með þessari ákvörðun fylgt eftir þeirri stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að styrkja stöðu Seðlabankans en ríkissjóður tók í fyrra erlent lán til fimm ára sem nam einum milljarði evra og endurlánaði Seðlabankanum til að styrkja gjaldeyrisforða hans.
Reykjavík 2. apríl 2007