Opnun aðalræðisskrifstofu í Færeyjum
Ávarp Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra
við opnun aðalræðisskrifstofu Íslands í Fæeyrjum
Kæri Lögmaður Jóannes Eidesgaard, - kæru vinir,
Það er gaman að vera komin hingað til Færeyja, og sérstaklega af þessu mikilvæga og skemmtilega tilefni.
Opnun aðalræðisskrifstofu Íslands í Þórhöfn með útsendum sendierindreka hefur lengi verið á dagskrá. Tvennt hefur þar aðallega tafið. Annars vegar hefðbundin varfærni í ákvörðun og undirbúningi stórvirkis af þessu tagi, eins og gefur að skilja. Hins vegar einnig sú staðreynd að Ísland hefur frá upphafi verið þeirrar gæfu aðnjótandi að okkar færeysku heiðursræðismenn hafa allir verið mikilmenni, sem sinnt hafa sínu hlutverki með framúrskarandi hætti.
Síðustu tvo áratugi rúma hefur okkar góði vinur Poul Mohr staðið vaktina og verið - að öðrum ólöstuðum - í algerum sérflokki heiðursræðismanna Íslands á erlendri grundu. Getum við seint þakkað honum og hans góðu konu, Önnu, nógsamlega fyrir hans og þeirra framlag til sambands Íslands og Færeyja, Íslendinga og Færeyinga.
Kæri Poul, þótt færeyskur sért, ertu líka Íslands sonur og verður ætíð.
Eiður Guðnason, sendiherra og Eygló Helga kona hans taka í dag við hlutverki aðalræðismannshjóna hér í Færeyjum.
Eiður á að baki farsælan feril í utanríkisþjónustu Íslands, en þar til síðastliðið haust starfaði hann sem sendiherra Íslands í Kína. Áður hafði hann verið bæði sendiherra í Osló, og aðalræðismaður í Winnepeg. Hann á einnig að baki farsælan feril í bæði stjórnmálum og fjölmiðlum og því óhætt að segja að okkar fyrsti útsendi ræðismaður sé mikill fjöllistamaður. Ég vænti mikils af honum í þessu nýja starfi og veit fyrir víst að hann mun sinna því af miklum sóma.
Það er svo margt sem tengir Ísland og Færeyjar að vart verður því öllu komið við í stuttu ávarpi sem þessu. Menning okkar, saga og tunga eru samtvinnuð með einstökum hætti. Engin þjóð í veröldinni er okkur jafn nákomin og færeyska þjóðin. Það gildir ekki bara um mál og menningu heldur svo ótal margt annað. Hér í Færeyjum líður okkur Íslendingum eins og heima hjá okkur og vonandi á það sama við um Færeyinga á Íslandi.
Íslendingar og Færeyingar hafa löngum ruglað saman reitum á flestum sviðum mannlífsins, hvort heldur sem er á sviði menningar, viðskipta, stjórnmála, eða fiskveiða, svo fátt eitt sé nefnt. Þessi traustu samskipti munu án efa fara vaxandi á komandi árum.
Íslendingar hafa látið til sín taka í færeysku viðskiptalífi og segja sumir að hin eiginlega útrás íslenskra viðskiptaaðila, sem vakið hefur athygli á undanförnum árum, eigi upphaf sitt hér í Færeyjum. Hugsa ég að fulltrúar Baugs og Kaupþings, sem eru staddir hér í dag, geti til að mynda tekið undir það.
Færeyskir viðskiptaaðilar hafa einnig látið til sín taka á Íslandi svo eftir hefur verið tekið. Þeirra þekktastur er án efa Jakúp Jacobsen, stofnandi Rúmfatalagersins, sem ásamt því að vera lagstur í víking til Ameríku, stendur nú fyrir byggingu hæsta húss á Íslandi.
Annar Færeyingur, Eivør Pálsdóttir, hefur síðustu ár sungið sig inn í hjörtu íslensku þjóðarinnar. Það er einfaldlega ekki annað hægt en að hrífast af Eivøru, seiðandi tónlist hennar og heillandi framkomu. Nýlega hefur annar Færeyingur stigið fram á sjónarsviðið og haldið íslensku þjóðinni hugfanginni með frábærri frammistöðu sinni í sjónvarpsþáttunum X-factor. Er það Jógvan sem ættaður er úr Klakksvík og verður spennandi að sjá hvernig honum mun reiða af í úrslitunum.
Þá er verið að stofna ABC barnahjálp hér í Færeyjum og sýnt sig að hér er mikill áhugi til að taka höndum saman með Íslendingum við að hjálpa bágstöddum börnum í fátækari ríkjum heims.
Kæru vinir,
Eins og mörg ykkar vita var gildistaka Hoyvíkursamningsins þann 1. nóvember s.l. sá örlagavaldur sem gerði það að verkum að Ísland ákvað að stíga loks skrefið til fulls og opna fullbúna aðalræðisskrifstofu með útsendum starfsmanni hér í Þórshöfn.
Sá samningur er víðtækasti alþjóðasamningur sem báðar þjóðirnar hafa gert og það er undir okkur sjálfum komið hvernig hann mun nýtast okkur til frekara samstarfs og samskipta á öllum sviðum. Ekki efa ég að báðar þjóðirnar hafa til þess ríkan metnað og er dagurinn í dag ein staðfesting þessa.
Við Íslendingar hlökkum mikið til þess dags þegar Færeyingar opna sína sendiskrifstofu í Reykjavík síðar á árinu. Þá verður hátíð í Reykjavík. Það er bjart framundan í samskiptum þjóðanna og er það mér mikill heiður og sönn ánægja að eiga þátt í þessari þróun.
Bert er bróðurleyst bak segir í Njálssögu og höfum við Íslendingar svo sannarlega reynt hversu gott það er að eiga bræður og systur í ykkur Færeyingum á erfiðum tímum. Sá stuðningur sem þið hafið sýnt okkur í verki í baráttu okkar við óblíð náttúruöflin, og það á tímum efnahagsþrenginga hér í eyjunum, líður Íslendingum aldrei úr minni.
Um leið og ég þakka ykkur öllum fyrir að vilja eiga með okkur þessa stund hér í dag og samfagna þessum merka áfanga í samskiptum þjóðanna vil ég biðja ykkur að lyfta öll glasi og skála fyrir Færeyjum og Íslandi.
Skál.