Skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn
Forsætisráðherra hefur á grundvelli 1. gr. laga nr. 26/2007 skipað nefnd til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn. Í nefndinni eiga sæti Róbert R. Spanó, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands, sem er formaður, dr. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, dr. Jón Friðrik Sigurðsson, yfirsálfræðingur á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi, og dr. Ragnhildur Bjarnadóttir, dósent í sálfræði við Kennaraháskóla Íslands. Ritari nefndarinnar er Aagot V. Óskarsdóttir, sérfræðingur hjá Lagastofnun Háskóla Íslands.
Samkvæmt erindisbréfi forsætisráðherra er nefndinni í fyrstu ætlað að kanna starfsemi vistheimilisins Breiðavíkur á árunum 1950 til 1980. Markmið þeirrar könnunar og meginverkefni nefndarinnar vera eftirfarandi:
a. Að lýsa starfsemi vistheimilisins Breiðavíkur, hlutverki hennar í barnaverndar- eða uppeldismálum og tildrögum þess að börn voru vistuð þar á ofangreindu tímabili.
b. Að leitast við að staðreyna eins og kostur er hvort og þá í hvaða mæli börn sem vistuð voru á vistheimilinu Breiðavík hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi meðan á dvölinni stóð.
c. Að lýsa því hvernig opinberu eftirliti með vistheimilinu Breiðavík var háttað.
d. Að leggja grundvöll að tillögum til stjórnvalda um frekari viðbrögð ef ástæða þykir til.
Nefndinni er ætlað að skila skýrslu um könnunina til forsætisráðherra eigi síðar en 1. janúar 2008.
Reykjavík 2. apríl 2007