Stýrivextir á Íslandi í alþjóðlegum samanburði
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 29. mars 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Seðlabanki Íslands ákvað fyrir helgi að halda stýrivöxtum óbreyttum, í 14,25%.
Í þessu sambandi er vert að huga að því að núorðið hafa seðlabankar það hlutverk í hagstjórninni að stýra verðbólguþróun. Stýrivextir eru það stjórntæki sem seðlabankar nota til að hafa áhrif á lánskjör útlánastofnana og þar með eftirspurn á markaði. Að öðru óbreyttu auka fyrirtæki og almenningur lántöku sína þegar vextir lækka að raungildi og að sama skapi er dregið úr lántökum þegar þeir hækka. Seðlabankar framfylgja ákveðnum markmiðum varðandi verðlag. Í flestum þróuðum ríkjum með sjálfstæðan gjaldmiðil hefur verðbólgumarkmið notið hylli. Seðlabanki Íslands stefnir t.d. að því að verðbólga sé 2,5%. Í Bandaríkjunum fylgir seðlabankinn markmiði um verðstöðugleika en tekur einnig tillit til áhrifa stýrivaxta á hagvöxt og atvinnustig.
Eins og myndin sýnir hafa stýrivextir víða hækkað undanfarin ár í takt við uppsveiflu í efnahagslífi heimsins. Hagvöxtur í hinum stærri ríkjum hefur undanfarin ár verið á bilinu 2-4% á ári, meiri í Bandaríkjunum og Bretlandi, en minni í Evrópu og breytilegur í Japan. Hagvöxtur hefur verið mun meiri á Íslandi. Þróun stýrivaxta hefur því ekki verið samstíga. Seðlabankar Bretlands, Bandaríkjanna og Íslands hófu að hækka stýrivexti árið 2004 þegar þeir voru orðnir nokkuð lágir, sérstaklega í Bandaríkjunum. Seðlabanki Evrópu tók að hækka stýrivexti í árslok 2005 og Seðlabanki Japan hóf sitt hækkunarferli í júlí 2006.