Viðurkenning háskóla á Íslandi
Síðustu áratugi hefur umfang háskólastarfsemi hér á landi meira en tvöfaldast hvað varðar nemendafjölda. Einnig hefur námsframboð á háskólastigi margfaldast ekki síst hvað varðar framhaldsnám á háskólastigi. Sumarið 2006 voru ný rammalög um háskóla samþykkt frá Alþingi. Í þeim lögum var brugðist við þessari þróun og áhersla lögð á gæði íslensks háskólastarfs.
Lögunum hefur verið vel tekið af háskólunum, sem gera auknar kröfur um gæði og alþjóðlegan samanburð. Á Íslandi eru nú starfandi átta háskólastofnanir, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Kennaraháskóli Íslands, Listaháskóli Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn á Hólum. Þeir tveir síðast nefndu falla ekki undir rammalögin heldur lúta þeir búfræðslulögum, en þeir hafa samt sem áður valið að taka virkan þátt í þróun þess gæðakerfis sem fellst í lögum um háskóla nr. 63/2006.
Lögin leggja grunn að gæðakerfi sem meðal annars felur í sér viðurkenningu menntamálaráðherra á háskólum, viðmið um æðri menntun og prófgráður og eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna.
Til að háskólar öðlist viðurkenningu þurfa þeir að hafa lagað nám sitt að viðmiðunum og birta yfirlit yfir afrakstur þess náms sem prófgráður þeirra veita.
Viðurkenning háskóla tengir saman viðmið um æðri menntun og prófgráður og eftirlit með gæðum kennslu á skilvirkan máta. Samkvæmt lögum nr. 63/2006 skulu háskólar sem starfa samkvæmt starfsleyfi menntamálaráðherra hafa öðlast viðurkenningu á starfsemi sinni innan tveggja ára frá gildistöku laganna. Viðurkenning háskólanna er skilgreind frekar í reglum nr. 1067/2006.
Viðmið um æðri menntun og prófgráður hafa verið birt í auglýsingu nr. 80/2007 í Stjórnartíðindum. Þau eru afrakstur samvinnu háskóla og menntamálaráðuneytis. Þar eru skilgreind þau atriði sem nemendur skulu hafa tileinkað sér gegnum námið þegar prófgráða er veitt. Þau byggja á þeim viðmiðum sem gefin hafa verið út í tengslum við Bologna ferlið og gerir íslenskum háskólum kleift að laga sig enn frekar að sameiginlegu evrópsku háskólasvæði þar sem afrakstur náms (learning outcomes) er grunnurinn að samanburði milli stofnana og ríkja.
Eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna verður tvíþætt. Annarsvegar skal ytra eftirlit með kennslu og rannsóknum beinast að því að ganga úr skugga um hvort forsendur viðurkenningar séu enn til staðar. Hinsvegar verður það leiðbeinandi fyrir skólana um hvernig megi bæta kennslu og rannsóknir.
Undanfarna mánuði hefur menntamálaráðuneyti unnið að skipulagi og framkvæmd viðurkenningarferlisins. Mikil áhersla hefur verið lögð á að tryggja trúverðugleika ferlisins og að hann uppfylli alþjóðlega gæðastaðla.
Viðurkenningar háskóla miðast við fræðasvið og undirflokka þeirra út frá Frascati- staðli OECD. Fræðasviðin eru náttúruvísindi, hugvísindi, verk- og tæknivísindi, heilsuvísindi, bú- og auðlindavísindi og félagsvísindi. Þá verða listir flokkaðar sem sérstakt fræðasvið.
Framkvæmd viðurkenninganna verður tvískipt. Náttúruvísindi, hugvísindi, verk- og tæknivísindi ásamt listum verða tekin fyrir á vormánuðum og þær stofnanir sem sækjast eftir viðurkenningu á þessum fræðasviðum skiluðu inn umsóknum 1. mars.
Önnur fræðasvið verða tekin fyrir í haust og er skiladagur umsókna 3. september.
Skipað hefur verið í fjórar af sjö nefndum sérfræðinga sem munu skila umsögn um hæfi háskólanna á fræðasviðum og undirflokkum þess til menntamálaráðherra. Við skipan nefndarmanna var leitast eftir að fá til verksins færustu einstaklinga sem völ er á. Leitað var eftir tilnefningum hjá viðurkenndum matsstofnunum í Evrópu og Bandaríkjunum. Gerðar voru kröfur um að viðkomandi sérfræðingar hefðu reynslu af viðurkenningum og gæðastarfi á háskólastigi ásamt viðtækri reynslu af stjórnun háskólastofnana ásamt prófessorshæfi innan fræðasviðs.
Náttúruvísindi:
- Próf. Dr. Fredrich Seifert, Bayreuth Universität, Þýskaland
- Próf. Rolf Hernberg, Tampere University of Technology, Finnland
- Próf. Paul Engel, University College of Dublin, Írland
Hugvísindi:
- Próf. Brynja Svane, Uppsala Universitet, Svíþjóð
- Próf. Nils Erik Villstrand, Åbo Akademi, Finnland
- Ann Kettle, Dean of Faculty of Arts, St. Andrews University, Skotland
Verk- og tæknivísindi:
- Próf. Hans Peter Jensen, Roskilde Universitet Center, Danmörk
- Próf. James Brown, National University of Ireland Galway, Írland
- Próf. Errki Lakervi, Helsinki Technical University, Finnland
Listir:
- Próf. Dr. Gerd Zimmermann, Bauhaus – Universität, Þýskaland
- Próf. Kathleen Conlin, University of Illinois, Bandaríkin
- Próf. Rita McAllister, Royal Scottish Academy of Music, Skotland
Til þess að gæta fyllstu hlutlægni hefur menntamálaráðuneyti samið við Rannís um að hýsa og sjá um almenna umsýslu umsagnarferlisins. Nú þegar hafa fyrstu tvær nefndirnar komið til landsins og heimsótt þá skóla sem sóttu um á fræðasviðum náttúruvísinda og hugvísinda. Síðari tvær nefndirnar munu vera hér á landi í apríl.
Úrskurðar menntamálaráðherra um viðurkenningu háskóla á ofantöldum fræðasviðum er að vænta í haust. Stefnt er að því að seinni hluta ferlisins, á fræðasviðum heilsuvísinda, félagsvísinda og bú- og auðlindavísinda verði lokið í mars.