Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2007 Utanríkisráðuneytið

Viljayfirlýsing um samstarf á sviði jarðskjálftarannsókna

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar
Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 050

Sendiherra Íslands á Indlandi, Dr. Gunnar Pálsson, og ráðuneytisstjóri vísindamálaráðuneytis Indlands, Dr. T. Ramasami, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um samstarf Íslands og Indlands á sviði jarðskjálftarannsókna.

Í yfirlýsingunni er kveðið á um fyrsta áfanga samstarfsins sem felst í samvinnu íslenskra og indverskra jarðvísindamanna um undirbúning og þróun langtímaverkefnis í jarðskjálftarannsóknum, einkum með tilliti til þess hvernig spá megi fyrir um jarðskjálfta. Veðurstofa Íslands mun annast samstarfið fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri tengjast verkefninu, auk utanríkisráðuneytisins sem undirbúið hefur viljayfirlýsinguna og standa mun straum af kostnaði.

Fyrsti áfangi verkefnisins mun taka um hálft ár. Á þeim tíma munu tveir indverskir vísindamenn heimsækja Ísland til að kynna sér tækni á Íslandi á sviði jarðskjálftamælinga og eftirlits og tveir íslenskir vísindamenn heimsækja Indland til að leggja grunninn að samstarfinu. Íslenskir jarðskjálftasérfræðingar hafa á undanförnum árum haft forystu um að þróa tækni fyrir jarðskjálftaspár sem vakið hefur athygli víða um lönd. Aðferðin byggir í grundvallaratriðum á svokölluðum smáskjálftamælingum, þ.e.a.s. vöktun nær samfelldra smáskjálfta í jarðskorpunni til að fylgjast með breytingum, og fjölbreytilegum rannsóknum á sviði jarðvísinda með það að markmiði að spá fyrir um jarðskjálfta. Umtalsverð jarðskjálftavirkni er á Indlandi, t.d. í Himalajafjöllunum, og telja íslensk og indversk stjórnvöld að samstarf um jarðskjálftaspár geti nýst báðum ríkjum í vísindalegu og hagnýtu tilliti.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta