Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ársfundur Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna

www.fjolskylda.is
www.fjolskylda.is

Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna heldur ársfund sinn á Grand Hóteli fimmtudaginn 12. apríl kl. 8.30–10.00 en morgunverðarhlaðborð hefst kl. 8.15.

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra flytur ávarp eftir að Ingi Valur Jóhannsson, formaður framkvæmdastjórnar Ráðgjafarstofu, setur fundinn og þá gerir Ásta S. Helgadóttir forstöðumaður grein fyrir ársskýrslu stofunnar fyrir árið 2006. Að því loknu verður fjallað um löggjöf vegna greiðsluerfiðleika. Arne Roti, lögfræðingur hjá lögreglustjóranum í Sogni, segir frá reynslu Norðmanna af löggjöf um greiðsluaðlögun (gjeldsordningsloven) og Egill Stephensen, formaður nauðasamninganefndar, gerir grein fyrir störfum nefndarinnar.

Hlutverk Ráðgjafarstofu er að veita fólki sem á í verulegum greiðsluerfiðleikum og komið er í þrot með fjármál sín endurgjaldslausa ráðgjöf. Ráðgjafarstofan skal veita fólki aðstoð við að fá sýn yfir stöðu mála, hjálpa því við að gera greiðsluáætlanir, velja úrræði og hafa milligöngu um samninga við lánardrottna ef þess er þörf. Þá skal Ráðgjafarstofan veita alhliða ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna með útgáfu sérstakra bæklinga og fræðsluefnis.

Frá upphafi hafa tæplega 7.000 fjölskyldur á Íslandi fengið aðstoð við að leysa úr fjárhagsvandræðum sínum. Auk þess hafa nokkur þúsund manns fengið ráðgjöf símleiðis. Síðast en ekki síst er það mikilvægt hlutverk að leiða til samstarfs þá aðila sem koma að lausnum á fjárhagsvanda fjölskyldunnar.

Félagsmálaráðuneytið setti Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna á laggirnar sem tilraunaverkefni í febrúar 1996. Hinn 17. febrúar 2005 var undirritað nýtt samkomulag um hlutverk og rekstur Ráðgjafarstofunnar. Að því samkomulagi standa alls 15 aðilar: Félagsmálaráðuneytið, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Íbúðalánasjóður, Glitnir hf., Kaupþing banki hf., Landsbanki Íslands hf., Landssamtök lífeyrissjóða, Rauði kross Íslands, Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Samband íslenskra sparisjóða, Samband íslenskra sveitarfélaga og Þjóðkirkjan. Samkomulagið gildir til 31. desember 2007.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta