Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Niðurstöður könnunar á starfsumhverfi ríkisstarfsmanna gefnar út

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 4/2007

Í dag voru kynntar niðurstöður könnunar á starfsumhverfi ríkisstarfsmanna en könnunin er samstarfsverkefni fjármálaráðuneytisins, Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands og ParX viðskiptaráðgjafar IBM. Könnunin var framkvæmd í nóvember og desember síðastliðnum og að baki niðurstöðunum liggja svör tæplega 10 þúsund ríkisstarfsmanna sem starfa hjá 144 stofnunum ríkisins. Niðurstöður er um margt athyglisverðar. Helstu niðurstöður eru meðal annars:

  • Viðhorf ríkisstarfsmanna til margra þátta í starfsumhverfinu hafa lítið breyst frá fyrri könnun sem framkvæmd var árið 1998. Það á t.a.m. við um afstöðu starfsmanna til stjórnunar, ráðninga, vinnuaðstöðu, vinnuálags, streitu og jafnvægis milli vinnu og einkalífs. Einnig mælist starfsánægja, starfsandi og hollusta ríkisstarfsmanna svipuð.
  • Á tilteknum stjórnunarsviðum má greina jákvæðari afstöðu starfsmanna en árið 1998. Þannig hefur hlutfall þeirra sem telja að upplýsingamiðlun innan sinnar stofnunar sé í góðu lagi hækkað. Vísbending er um að fleiri telji vinnubrögð til fyrirmyndar og að viðskiptavinir séu ánægðir með þjónustu stofnunar.
  • Mikill breytileiki kemur fram milli einstakra stofnana á afstöðu starfsmanna til stjórnunar og starfsumhverfis.
  • Niðurstöður sýna að aðferðir mannauðsstjórnunar hafa jákvæð áhrif á viðhorf starfsmanna. Má þar nefna að þeir starfsmenn sem telja að starfsmannastefnu stofnunar sé framfylgt hafa jákvæðari afstöðu til stjórnunar stofnunar og mælast einnig með hærri starfsánægju. Einnig eru afgerandi tengsl milli þess hvernig starfsmenn eru settir inn í núverandi starf og hve ánægðir þeir eru með þann þátt. Þannig var hlutfall þeirra sem voru ánægðir með þann þátt áberandi lægra hjá þeim starfsmönnum sem ekki voru settir sérstaklega inn í starfið.
  • Ríkisstofnunum hefur fækkað og þær stækkað. Þær voru tæplega 250 árið 1998 en eru nú rúmlega 200.
  • Hlutfall kvenna í hópi stjórnenda hefur einnig hækkað á tímabilinu.
  • Menntunarstig ríkisstarfsmanna hefur hækkað frá 1998. Hlutfall svarenda með háskólamenntun er 57%.
  • 44% eru ánægð með stjórnun stofnunar sinnar en það er sama hlutfall og árið 1998.
  • Hlutfall þeirra sem telja að upplýsingamiðlun innan stofnunar sem þeir starfa hjá sé í góðu lagi hefur hækkað um 10% frá árinu 1998 og er nú 42%.
  • Alls álitu 58% ríkisstarfsmanna að ímynd eigin stofnunar í samfélaginu væri jákvæð. Þessi afstaða er svipuð og kom fram 1998. Viðhorf starfsmanna til ímyndar stofnunar eru mjög breytileg eftir tegundum stofnana.
  • Langflestir ríkisstarfsmenn eða 89% telja að þekking og hæfileikar sínir nýtist vel í starfi og mælist þetta hlutfall svipað eftir tegundum stofnana.
  • Um 50% svarenda höfðu einu sinni eða oftar farið í starfsmannasamtal. Það virðist talsvert vanta upp á að starfsmannasamtölum sé fylgt eftir þar sem aðeins um 30% þeirra sem höfðu farið í starfsmannasamtal töldu að svo væri.
  • Hlutfall þeirra sem voru ánægðir með laun sín er lágt eða aðeins 21%. Hlutfallið hefur þó hækkað síðan 1998. Afstaða til launa er breytileg eftir tegundum stofnana, menntun og kynferði. Þannig voru færri konur ánægðar með laun sín en karlar. Niðurstöður sýna að lítil fylgni er á milli starfsánægju og ánægju með laun.
  • Meirihluti þátttakenda var ánægður í starfi eða um átta af hverjum tíu. Óverulegur munur er á starfsánægju eftir kyni, aldri, menntun og því hvar fólk starfar.
  • Mikið vinnuálag og streita virðist vera áberandi og mælist það svipað og áður.
  • Hlutfall svarenda sem telja sig hafa orðið fyrir einelti á núverandi vinnustað er 17%, þar af 10% oftar en einu sinni.

Gefin hefur verið út skýrsla þar sem meginniðurstöður könnunarinnar koma fram. Skýrslan er gefin út rafrænt og er aðgengileg á vef fjármálaráðuneytisins. Þar er einnig hægt að nálgast nánari upplýsingar um könnunina.

Reykjavík 11. apríl 2007



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta